Home Fréttir Í fréttum Undirbúa útboð fyrstu áfanga á Kjalarnesi og Dynjandisheiði

Undirbúa útboð fyrstu áfanga á Kjalarnesi og Dynjandisheiði

240
0
Frá Vesturlandsvegi um Kjalarnes. Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út fyrsta áfanga í breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes í næsta mánuði.

<>

Jafnframt er áformað að bjóða út fyrstu verkhluta á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit í sumar. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Vesturlandsvegur milli Mosfellsbæjar og Hvalfjarðarganga þykir einhver hættulegasti kafli þjóðvegakerfisins og þar hefur lengi verið kallað eftir endurbótum, eins og fram kom á borgarafundi á Akranesi fyrir tveimur árum.

Þegar Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, er spurður um næstu stóru útboðsverk þá er Kjalarnes á listanum.

Hann nefnir einnig Vestfjarðaveg um Dynjandisheiði og Gufudalssveit.

Á Kjalarnesi er vonast til að fyrsti áfanginn, milli Varmhóla og Grundarhverfi, verði boðinn út í júní, en næsti áfangi er svo milli Grundarhverfis og Hvalfjarðar.

Ef allt gengur upp varðandi umhverfismat, breytingar á deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi er raunar stefnt að því að öll þessi þrjú verk fari í útboð í sumar; áfangar á Kjalarnesi, Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, „..og einhverja kannski byrjunarhluta í Gufudalssveit, ef leyfi fást,“ eins og Óskar Örn orðar það.

Á Dynjandisheiði er vonast til að hægt verði að byrja á tveimur áföngum, annars vegar við Þverdalsá ofan Penningsdals og hins vegar á kafla í Arnarfirði, milli Mjólkárvirkjunar og fossins Dynjanda.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í kvöld:

Heimild: Visir.is