Home Fréttir Í fréttum Telur eðlilegt að framkvæmdin hafi farið fram úr áætlun

Telur eðlilegt að framkvæmdin hafi farið fram úr áætlun

236
0
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Viðgerð á Ráðhúsi Árborgar sem átti að kosta fimm milljónir króna stefnir í að verða að hundrað milljóna króna viðhaldsverkefni. Bæjarfulltrúar vilja rannsókn á framkvæmdunum. Bæjarstjóri segir að eðlilegar skýringar séu á framúrkeyrslunni.

Undir lok árs 2018 var ákveðið að verja fimm milljónum króna í að skipta um gólfdúk og gera aðrar úrbætur á bókasafninu í húsnæði Ráðhúss Árborgar á Selfossi.

<>

Verkefnið hefur undið upp á sig og kostnaðurinn er nú um 65 milljónir króna. Viðbúið er að enn eigi eftir að bætast við 40 milljóna útgjöld.

Þá verður heildarkostnaður orðinn 105 milljónir en ekki fimm eins og lagt var upp með.

Gleymdist að setja inn kostnað vegna hönnunar

Gísli Halldór Gíslason, bæjarstjóri í Árborg, segir að aukinn kostnað á framkvæmdunum megi rekja til þess að óvænt þurfti að flytja þjónustuver ráðhússins niður á bókasafn þegar hafist var handa við að dúkleggja þar.

„Það er nú meginmálið. Síðan gleymist að, þegar gerður er viðauki, að þá hefur gleymst að setja inn kostnað vegna hönnunar.

Það er auðvitað þannig að þegar þú ferð í að hanna svona stórt og gott hús og velur þér arkitekta að þú ætlar kannski ekki að taka þann ódýrasta. Þú ætlar að reyna að fá þann sem skilar þér góðri vinnu.“

Allt annað hafi verið samkvæmt innkaupareglum og samningum við verktaka.

„Í öllum svona opinberum framkvæmdum þarf að byrja á því að teikna, byrja á því að ráða arkitekta, síðan þarf að teikna þetta upp og síðan þarf að fá tilboð í verkið í heild sinni og vinna það eftir þeim vinnubrögðum.

Það eru eðlileg vinnubrögð,“ segir Gunnar Egilsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn og fulltrúi minnihlutans. Hann segir að sú hafi ekki verið raunin í þessum framkvæmdum.

„Þurfum að hugsa um fé íbúa“

Verkið var ekki boðið út þar sem það var talið vera neðan útboðsmarka. Fulltrúar minnihlutans hafa óskað eftir óháðri úttekt á ákvarðanatöku og framkvæmdum – og hvort hún hafi verið í samræmi við lög.

Bæjarstjórinn telur eðlilegt að framkvæmdirnar hafi farið fram úr áætlun.  Hins vegar megi draga lærdóm af þeim og breyta verklagi þegar kostnaður er metinn.

Gunnar er því ósammála. „5 milljónir í tæpar hundrað milljónir eða yfir hundrað milljónir, er það eðlilegt? Nei það er ekki eðlilegt. Við þurfum að hugsa um fé íbúa.“

Heimild: Ruv.is