Byggingin verður tengd nær öllum öðrum byggingum Alþingis þannig að innan gengt verður til Skála og þinghússins sjálfs auk húsalengjunnar við Kirkjustræti.
Steingrímur sagði í ávarpi við skóflustunguna að framkvæmdin sé sú mesta á vegum Alþingis í 140 ár, eða frá því að Alþingishúsið sjálft var reist á árunum 1880–1881. Kostnaðurinn við þá framkvæmd hafi numið tæpum þriðjungi árlegra umsvifa ríkisins eins og þau hafi verið á þeim tíma.
Hann segir að af byggingunni verði mikið hagræði og sparnaður til lengri tíma litið. Leiga á fjölmörgum stöðum í Kvosinni á mishentugu húsnæði sé óhentugt og dýrt úrræði.
„Mest um vert er þó að hér verða skapaðar nútímalegar og fyrsta flokks vinnuaðstæður fyrir þingmenn og ekki síður starfsfólk Alþingis. Hér verða góðar aðstæður til að taka á móti gestum sem til Alþingis og þingnefnda koma og Alþingi verður mun betur í stakk búið til að halda ýmis konar fundi og minni ráðstefnur,“ sagði hann í ávarpinu.
Þegar hafi verið samið um tvo fyrstu verkþættina. Annars vegar steinkápu byggingarinnar sem verði litbrigði í íslensku bergi og jarðvegsvinna í grunni byggingarinnar sem hefjist á næstu dögum. Útboð fyrir bygginguna sjálfa verði auglýst í vor og uppsteypa hefjist í haust.
Heimild: Ruv.is