Home Fréttir Í fréttum Fleiri félagslegar íbúðir í Hraunbæ

Fleiri félagslegar íbúðir í Hraunbæ

304
0
Aðsend mynd

Bjarg byggir 58 íbúðir til viðbótar í Hraunbæ fyrir tekjulága en þar af fá Félagsbústaðir fimmtung íbúðanna.

<>

Borgarráð hefur samþykkt að úthluta Bjargi íbúðafélagi verkalýðshreyfingarinnar lóð og byggingarrétti fyrir 58 íbúðir í þremur stakstæðum húsum við Hraunbæ 133 í Árbæ.

Samkvæmt úthlutuninni fær Bjarg heimild til að byggja þrjú stakstæð hús, tæpa 6.200 fermetra ofanjarðar ásamt bílakjöllurum. Samanlagður byggingarréttur er um 8.400 fermetrar.

Samþykkið er háð því skilyrði að Bjarg fái úthlutað stofnframlagi frá ríkinu. Koma þessar íbúðir sem ætlaðar eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga með lágar tekjur til viðbótar við 99 íbúðir sem núþegar eru í byggingu fyrir Bjarg íbúðafélag í Hraunbænum.

Bjarg greiðir 45.000 kónur á fermetrann á nýja reitnum, en það er verð byggingarréttar fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Samtals greiðir Bjarg rúmar 309 milljónir króna fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld. Hluta byggingarréttar verður skuldajafnað á móti 12% stofnframlagi Reykjavíkurborgar sem er veitt á grundvelli laga nr. 52/2016.

Bjarg skuldbindur sig til þess að framselja 20% íbúðanna, sem verða byggðar á lóðinni, á kostnaðarverði til Félagsbústaða. Félögin gera með sér sérstakan samning um kaupin.

Íbúðirnar verði stærri en hingað til
Að sögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra Bjargs verður hafist handa við uppbyggingu á lóðinni með haustinu og verða íbúðirnar að öllum líkindum aðeins stærri en þær sem félagið hefur byggt til þessa og ætlaðar fjölskyldufólki þar sem tekjuviðmið leigutaka hjá Bjargi hafa hækkað með nýjum lögum.

Breytingin veiti þar með fleiri einstaklingum og fjölskyldum kost á hagkvæmu leiguhúsnæði.

Þetta eru ekki einu íbúðirnar sem Bjarg byggir í Árbæ því félagið er langt komið með byggingu 99 íbúða í fjórum fjölbýlishúsum við Hraunbæ 153-163.

Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun sem rekin er án svokallaðra hagnaðarmarkmiða. Félagið hefur að markmiði að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd.
Bjarg íbúðafélag hefur verið með leiguíbúðir í byggingu við Móaveg í Grafarvogi, Úlfarsárdal, Hraunbæ og Kirkjusandi í Reykjavík auk íbúða á Akranesi og Akureyri, en opið er fyrir umsóknir um íbúðir á bjargibudafelag.is.

Fyrsta verkefni Bjargs var uppbygging á 155 íbúðum við Móaveg. Því verkefni er nú að fullu lokið og afhentu Íslenskir aðalverktakar félaginu síðustu íbúðirnar nú um miðjan janúar, á pari við kostnaðaráætlun og sex mánuðum á undan áætlun.

Heimild: Vb.is