Í dag voru kynntar niðurstöður dómnefndar í hugmyndasamkeppni um lóð RÚV við Efstaleiti og var tillaga Arkþings hlutskörpust. „Ný byggð er í góðu jafnvægi við kvarða nærliggjandi byggðar, t.d. húsa við Neðstaleiti og Stóragerði…“ segir meðal annars í dómnefndaráliti. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri kynntu niðurstöðurnar og opnuðu formlega sýningu sem verður í Ráðhúsi Reykjavíkur til 7. júlí.
Þeir sem skipa vinningsteymi Arkþings eru Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt, Sigurður Hallgrímsson, arkitekt og Sigurjón Guttormsson, byggingarfræðingur.
Tillagan Arkþings gerir ráð fyrir að lóðinni sé skipt í tvo meginreiti. Á öðrum reitnum er gert ráð fyrir að byggðin samanstandi að mestu af íbúðum og minni verslunar- og þjónustueiningum. Þar er unnið markviss með stöllun húsa í hæð, formi og mótun lands svo úr verður ásýnd stakstæðra húsa með skemmtilegum þakgörðum og svölum. Dómnefndin telur vera mikilvægt er að þessi lykilhugmynd sé í forgrunni við útfærslu deiliskipulagstillögunnar. Á hinum reitnum telur dómnefndin sannfærandi hvernig byggðin er brotin upp í aðgreindar byggingar með láreistum tengibyggingum á suðurhluta og stakstæða byggingar á norðurhluta. „Höfundar virðast vinna með grunnform Ríkisútvarpshússins og opna á milli húsa fyrir sýn að Ríkisútvarpshúsinu sem tryggir því áframhaldandi sess í sínu umhverfi,“ segir í álitinu.
Heimild: Reykjavíkurborg