Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við Sauðárkrókslínu að hefjast

Framkvæmdir við Sauðárkrókslínu að hefjast

180
0
Mynd: Ruv.is

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur veitt Landsneti framkvæmdaleyfi vegna nýrrar Sauðárkrókslínu. Jarðstrengurinn liggur milli Sauðárkróks og Varmahlíðar og á að tvöfalda flutningsgetu. Formaður byggðaráðs fagnar þessari framkvæmd.

<>

Fyrirtæki á Sauðárkróki hafi orðið af tugum milljóna vegna rafmagnsleysis síðustu ár.

Landsnet óskaði nýverið eftir tilboðum í jarðvinnu og lagningu jarðstrengs. Sauðárkrókslína 2 verður 23 kílómetra löng, en þar að auki verður lagður annar tveggja kílómetra jarðstrengur við enda gömlu línunnar, nýtt tengivirki byggt á Sauðárkróki og hluti af tengivirkinu í Varmahlíð endurnýjaður.

Heildarkostnaður er áætlaður um 2,2 milljarðar króna.

Jarðstrengurinn hefur lengi verið á teikniborðinu. Eina tenging Sauðárkróks við flutningskerfið hefur verið í gegnum 40 ára gamla loftlínu. Verkefnið var sett í bið 2009 en komst aftur á dagskrá fyrir nokkrum árum.

Ástandið lengi verið óboðlegt
Línan kemur til með að auka afhendingaröryggi og tvöfalda flutningsgetu til Sauðárkróks.
Stefán Vagn Stefánsson formaður Byggðaráðs Skagafjarðar segir að heimamenn bindi miklar vonir við framkvæmdina, enda hafi raforkutengingar við Sauðárkrók ekki verið nægilega öflugar og það sé óboðlegt til lengri tíma.

„Við höfum lent í því ítrekað að verða fyrir rafmagnsleysi sem hefur kostað fyrirtæki hérna tugi milljóna,“ segir Stefán Vagn.

„Það eru fyrirtæki hérna sem hafa verið og eru að stækka og þurfa meira rafmagn og það er alveg ljóst að orkuþörfin eru að aukast verulega hérna og þess vegna verðum við að fara í þessa framkvæmd,“ segir Stefán Vagn.

Almenn sátt um framkvæmdina
Gert var ráð fyrir línunni í nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins sem Skipulagsstofnun staðfesti í lok júní. Byggðaráð Skagafjarðar hittist svo í vikunni og samþykkti að veita Landsneti framkvæmdaleyfi. Leyfið er bundið skilmálum sem snúa að verklagi og menningarminjum og er kæranlegt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í einn mánuð.

Samið hefur verið við alla landeigendur á svæðinu og telur Stefán Vagn að almenn sátt sé um þessa framkvæmd. „Það sjá allir þörfina fyrir þessari framkvæmd og menn eru meðvitaðir um núverandi ástand. Menn eru meðvitaðir um að það er ekki hægt að bjóða upp á það mikið lengur.

Ég heyri ekki og finn ekki annað en að það séu allir mjög sáttir og sælir með að þessi framkvæmd sé nú loksins að fara af stað, enda hefur sveitarfélagið barist fyrir því árum saman að ná þessu fram,“ segir Stefán Vagn.

Vilja spennusetja á næsta ári
Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets, segir í samtali við fréttastofu að fyrst öll leyfi séu í höfn eigi að hefja framkvæmdir í lok sumars, líkt og stefnt hafði verið að. Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets, sagði í samtali við fréttastofu í lok maí að taka ætti línuna í notkun á seinni hluta næsta árs.

Heimild: Ruv.is