Home Fréttir Í fréttum Ekkert tilboð barst í stærsta brúarverk Vegagerðarinnar

Ekkert tilboð barst í stærsta brúarverk Vegagerðarinnar

432
0
Frá smíði bráðabirgðabrúar yfir Steinavötn í Suðursveit í október 2017. Hún verður áfram í notkun enn um sinn á hringveginum. Mynd/Stöð 2.

Vegagerðin fékk ekkert tilboð í stærsta brúarútboði ársins, smíði tveggja nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá á hringveginum í Suðursveit, en tilboðsfrestur rann út í dag. Þetta koma fram í fréttum Stöðvar 2.

<>

Smíða átti 102 metra langa brú yfir Steinavötn, í stað þeirrar sem eyðilagðist í miklum flóðum haustið 2017, en einnig 46 metra brú yfir Fellsá vestast í Suðursveit, til að leysa af einbreiða brú. Þetta var eitt stærsta útboðsverk ársins og það langstærsta í brúarsmíði, verkefni upp á um einn milljarð króna.

Opna átti tilboð klukkan 14 í dag hjá Vegagerðinni en ekkert barst. Sama gerðist í útboði brúar yfir Kvíá í síðustu viku.

Vegagerðarmenn telja þetta vísbendingu um þenslu á verktakamarkaðnum en einnig geti spilað inn í að brúarsmíði sé mjög sérhæfð.

Þá séu verkin fjarri þéttbýlinu og erfiðara að fá mannskap.

Vonbrigði?

„Ja, ekki stór, þannig séð. Það kemur okkur aðeins á óvart að verktakar séu ekki að sýna meiri áhuga. En á móti kemur að við sýnum því skilning.

Þetta er kannski ekki besti tíminn yfir hásumarið að ráðast í svona samninga,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

„Og síðan getur bara verið, eins og ég segi, að menn hafi nóg að gera, – í augnablikinu.“

Vegfarendur um hringveginn hafa nú í nærri tvö ár mátt búa við bráðabirgðabrú yfir Steinavötn. Óskar vonast til að þessi uppákoma nú valdi ekki miklum töfum en Vegagerðin stefnir að því að bjóða verkið aftur út fljótlega.

„Við erum hvergi bangnir og við bjóðum bara út núna í haust. Og ég er alveg viss um að þá fáum við tilboð.“

Heimild: Visir.is