Home Fréttir Í fréttum Blönduós er að fá sitt fyrsta háhýsi, fimm hæða íbúðablokk

Blönduós er að fá sitt fyrsta háhýsi, fimm hæða íbúðablokk

251
0
20 íbúðir verða í fjölbýlishúsinu, sem rís á suðurbakka Blöndu. Grafík/ASK, arkítektar.

Blönduós er að fá sitt fyrsta háhýsi, fimm hæða íbúðablokk. Eftir áratugadeyfð í húsbyggingum er bærinn á skömmum tíma að úthluta lóðum undir nærri fimmtíu nýjar íbúðir.

<>

Þetta kom fram í þættinum „Um land allt“ og í fréttum Stöðvar 2.

Kannski finna fáir betur æðasláttinn í byggingageiranum á Blönduósi en smiðirnir í Trésmiðjunni Stíganda.

„Já, við finnum það að húsnæðisverð er búið að vera að hækka hér á staðnum og það eru að verða forsendur fyrir því að byggja hús á staðnum.

Það er augljóslega vöntun á húsnæði,“ segir Guðmundur Arnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Stíganda.

„Já, það kemur með meiri atvinnu. Þá vill fólk flytja á vaxtarsvæði. Hér er sannarlega orðið vaxtarsvæði frá og með síðasta ári og það þýðir það að fólk er að koma til baka, – af þeim sem fluttu í burtu.

Jafnvel nýir íbúar eru að koma út af fjölgun atvinnutækifæra,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar.

Glöggt má sjá að Blönduós er að lifna við á ný. Fyrstu merki nýrra húsbygginga sjást. Búið er að taka nokkra húsgrunna og bærinn úthlutar lóðum sem aldrei fyrr.

„Á síðasta ári vorum við að úthluta um 28 íbúðum og erum með 20 til viðbótar. Þannig að það eru þá 48 íbúðir sem eru í pípunum. Sumar eru í byggingu. Fyrstu tvö einbýlishúsin á síðasta ári voru byggð eftir tíu ára hlé,“ segir sveitarstjórinn.

Þeir hjá Stíganda eru í startholunum að hefja smíði parhúsa og búnir að sækja um tvær lóðir, við Sunnubraut og Smárabraut.

„Og við erum jafnvel að huga að því að byrja á framkvæmdum á Sunnubrautinni bara fljótlega á næstu vikum,“ segir Guðmundur.

Á bökkum Blöndu áformar félagið Uppbygging ehf. að hefja smíði fimm hæða fjölbýlishúss í næsta mánuði.

„Sem er snyrtileg 20 íbúða blokk, sem er kærkomið inn í þetta samfélag,“ segir Valdimar. Það gefi eldra fólk færi á að flytja úr einbýlishúsum í þægilegar, nýjar íbúðir og ungt fólk geti á móti stækkað við sig ef slíkt þarf vegna barnafjölda.

Heimild: Visir.is