Home Fréttir Í fréttum Iðnaðarráðherra vill átak í þrífösun rafmagns

Iðnaðarráðherra vill átak í þrífösun rafmagns

215
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Iðnaðarráðherra hyggst leggja til þriggja ára átak til að flýta því að koma á þriggja fasa rafmagni í væntanlegri fjármáláætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024. Þá verði forgangsröðun breytt.

<>

Í fyrsta áfanga skuli ráðast í þrífösun rafmagns í Skaftárhreppi og á Mýrum.

Þörf og samlegðaráhrif ráði forgangsröðun
Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að miðað við núgildandi áætlanir verði þrífösun rafmagns á landinu ekki lokið fyrr en eftir 16 ár eða árið 2035.

Samkvæmt tillögunni á að auka fjármagn til verkefnisins um 80 milljónir í þrjú ár og breyta forgangsröðun. Í stað þess að forgangsraða eftir aldri núverandi raflína, og álagi á þær, á að horfa á þörfina fyrir þrífösun og hvort að samlegðaráhrif séu með áætlunum um lagningu ljósleiðara.

Einfasa rafmagn takmarkandi
Í dag er meira en fjórðungur af öllu dreifikerfi RARIK einfasa, sem takmarkar bæði flutningsgetu kerfisins og það hve öflugan rafbúnað er hægt að nota á hverjum og einum stað og í tilkynningu ráðuneytisins segir að þrífösun sé mikilvæg út frá orkuskiptum, byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnutækifærum og átakið hafi skírskotun til byggðaáætlunar sem Alþingi samþykkti síðasta sumar og sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Áhersla á Skaftárhrepp og Mýrar
Í fyrsta áfanga í fyrirhuguðu átaki á að leggja áherslu á að koma á þriggja fasa rafmagni í Skaftárhreppi og á Mýrum.

Skaftárhreppur er eina sveitarfélagið á Suðurlandi sem ekki nýtur þriggja fasa rafmagns og er næststærsta sveitarfélagið á landinu að flatarmáli.

Það er skilgreint sem brothætt byggð og mikill ferðamannastraumur veldur álagi á innviði.

Á Mýrum fara saman brýn þörf á þrífösun vegna landbúnaðar og þá eru samlegðaráhrif vegna lagningu ljósleiðara á svæðinu.

Svæði Mýra nær frá Hvítárósum að mörkum Eyja- og Miklaholtshrepps á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Heimild: Ruv.is