Home Fréttir Í fréttum Brýnar vegabætur verði að setja í forgang

Brýnar vegabætur verði að setja í forgang

78
0
Mynd: Ruv.is
Fyrst verður að ákveða að flýta brýnum vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu áður en ákveðið verður að taka upp veggjöld. Þetta segir formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Veggjöld geti aðeins verið tímabundin og tryggja verði að þau renni til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í fréttum RÚV um helgina að breyta þyrfti gjaldtöku í vegakerfinu. Ráðherra hefur jafnframt sagt að eigi að flýta framkvæmdum á samgönguáætlun verði að grípa til veggjalda. Í ráðuneytinu er unnið að hugsanlegum útfærslum en ekki fæst uppgefið að svo stöddu hverjar þær gætu verið.

<>

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu segjast vera reiðubúin til viðræðna um veggjöld. Fram undan séu viðræður við ríkið um brýnar vegaframkvæmdir.

„Ég veit að sveitarfélögin á þessu svæði eru mörg hver mjög mikið að þrýsta á og er mjög mikið í mun að sjá fyrir endann á brýnum framkvæmdum á stofnbrautum sem liggja í gegnum sveitarfélögin sem bæði vegna umferðarteppu og öryggissjónarmiða, þola enga bið. Og við munum leggja ofuráherslu á það að þessar framkvæmdir komi fyrr til en nú er gert ráð fyrir,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta séu til að mynda framkvæmdir við Reykjanesbraut í Hafnarfirði og Arnarnesveg í Kópavogi.

„Við höfum náttúrulega verið ósátt við hvernig fjármagni er skipt hingað á höfuðborgarsvæðið miðað við þann mannfjölda sem fer hérna í gegn. Við erum að fá einn þriðja af fjármagni til samgöngumála í landinu meðan 65-70% af íbúunum búa hér og við erum með mestallan ferðamannastrauminn. Þannig að við höfum verið ósátt við það. Við viljum bara fá fjármagnið og við viljum fá framkvæmdir og við erum til samtals um það hvernig það fjármagn kemur til,“ segir Rósa.

Hún segir að verði ákveðið að taka upp veggjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði gerð krafa um að þau renni þangað.

„Þá hlýtur það að liggja beint við að við verðum að fá staðfestingu á því að þessi gjöld renni tímabundið beint í þessar framkvæmdir. Ég tel að hér yrði einungis um tímabundin gjöld að ræða,“ segir Rósa.

Heimild: Ruv.is