Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum á Blönduósi og nágrenni að mikil uppbygging á sér nú stað við Svínvetningabraut rétt fyrir ofan hesthúsabyggðina á Blönduósi.
Þar rís nú mikill fjöldi gagnavera og er eitt hús klárt og komið í gagnið. Nú er verið að reisa annað hús og búið er að steypa plötuna á einu húsi og grunna að tveimur.
Einn grunninn vantar á myndina sem fylgir fréttinni. Myndin var tekin 30. október, svo hratt gengur vinnan við gagnaverin.
Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis var nýlega í viðtali hjá Viðskiptablaðinu en félagið var til fyrir nokkru er gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere fjárfesti í íslenska félaginu Borealis.
Milljarðauppbygging gagnavera stendur nú yfir á Blönduósi og á Fitjum. Á Blönduósi starfa um 50 manns við uppbygginguna en byggð verða um sex hús, hvert og eitt um 700 fm að stærð. Auk þess stendur til að reisa eitt þjónustuhús sem verður minna.
„Við erum nú að koma upp húsi tvö sem verður líka tilbúið eftir um mánuð en þar erum við einnig byrjuð á þriðja húsinu sem verður tilbúið öðru hvoru megin við áramótin. Auk þess höfum við mikinn áhuga á að byggja upp viðhaldsvinnu og annað í kringum svona rekstur fyrir norðan sem myndi þýða að starfsmannafjöldinn þar yrði meiri en ella, sem gæti verið allt að helmingur þess fjölda sem nú vinnur við uppbygginguna.“ sagði Björn í Viðskiptablaðinu.
Etix Everywhere Borealis er 55% í eigu erlenda fyrirtækisins en það er hins vegar að stórum hluta í eigu japanska bankans SBI Holdings.
Heimild: Huni.is