Home Fréttir Í fréttum Pípulagningafeðgar sekir um skattalagabrot

Pípulagningafeðgar sekir um skattalagabrot

395
0
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness. Mynd: Vísir/gva

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt feðga, sem saman ráku pípulagningafyrirtæki, í fangelsi og greiðslu samtals 30 milljóna króna sektar fyrir skattalagabrot.

<>

Faðirinn var dæmdur í átta mánaða fangelsi en sonurinn fjögurra mánaða, en fullnusta refsinga fellur niður að tveimur árum liðnum, haldi þeir almennt skilorð.

Feðgarnir voru fundnir sekir  um að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna launa starfsmanna á árunum 2014 til 2016.

Þeir neituðu báðir sök en dómurinn mat það svo að samkvæmt framburði feðganna hafi þeir báðir borið ábyrgð á rekstri fyrirtækisins. Sonurinn taldi þó að hann hafi verið notaður sem „leppur“ og að faðir hans hafi séð um að stýra fjármálum fyrirtækisins.

Fullkunnugt um vanskil
„Fyrir liggur einnig að báðum var þeim fullkunnugt um vanskil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu og tóku þeir sameiginlega ákvörðun um að láta þær greiðslur sitja á hakanum fyrir launagreiðslum og greiðslum til birgja,“ segir í dómnum.

Ákærðu héldu því fram að fullur vilji hafi staðið til þess að standa í skilum með greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, en rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins og óvænt áföll hafi komið í veg fyrir það. Dómurinn taldi þó sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem rakin var í ákæru.

Heimild: Visir.is