Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við 600 milljóna brú hafnar

Framkvæmdir við 600 milljóna brú hafnar

370
0
Nýtt brúarstæði yfir Eldvatn Mynd: Skjáskot af Ruv.is
Framkvæmdir við nýja brú yfir Eldvatn hófust á föstudaginn. Áætlaður kostnaður er um 600 milljónir króna. Bónda á svæðinu líst illa á nýja brúarstæðið.

Brúin yfir Eldvatn í Skaftárhreppi laskaðist mikið í Skaftárhlaupinu árið 2015. Í hlaupinu nú í sumar hefur svo grafið enn frekar undan öðrum stöplinum. Vegagerðin lítur svo á að brúin sé ónýt og er umferð um hana takmörkuð við létt ökutæki.

<>

Lengi hefur staðið til að reisa nýja tvíbreiða brú yfir Eldvatn, á öðrum stað, og hófust framkvæmdir loks á föstudaginn var. Nýja brúin verður nokkuð frá gömlu brúnni. Vegagerðin áætlar að framkvæmdum ljúki næsta sumar, og að kostnaður verði um 600 milljónir.

Gísla Halldóri Magnússyni, bónda á Ytri-Ásum sem notar brúna daglega, líst hins vegar illa á nýja brúarstæðið. „Bakkinn sunnanmegin í hrauninu er svo lélegur og vatnið er komið svo langt niður ofan í jarðveg við brúarstæðið að það er hætt við að það fari undir klöppina og holi undan henni,“ segir Gísli Halldór.

Betra hefði verið að brúin stæði á sléttunni örlítið ofar í ánni. Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni að nýja brúarstæðið hafi verið valið með flóð í huga, og til að forðast veikt jarðvegslag. Og ekki er vanþörf á, því miklar breytingar verða á landslaginu og farvegi árinnar í hverju hlaupi. Þá eru sprungur meðfram bakkanum, sem stórhættulegt er að fara yfir.

„Bakkinn er alltaf að springa og eins og við sáum þarna áðan, þá er mikið af sprungum hér innmeð og austan við nýja brúarstæðið sérstaklega. Meira að segja sjáum við þarna í nýja sprungu rétt austan við brúarstæðið,“ segir Gísli Halldór. „Það er alltaf að hrynja úr þessu. Maður sér næstum því nýja sprungu í hvert skipti sem maður kemur hérna.“
Heimild: Ruv.is