Vegavinnumenn áttu fótum sínum fjör að launa vegna framgöngu ökumanns jepplings sem ók gegn lokunum sem settar höfðu verið upp vegna malbikunar á Austurvegi/Suðurlandsvegi austast á Selfossi að morgni 5. júlí síðastliðins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi þar sem farið er yfir verkefni liðinnar viku. Þar segir að ökumaðurinn hafi virt að engu bendingar starfsmanna á vinnusvæðinu sem þurftu að forða sér undan jepplingnum.
Ökumaðurinn var yfirheyrður á lögreglustöð vegna brota sinna sem hann kannaðist við. Er málið til rannsóknar og hafa verið teknar skýrslur af vitnum að atvikinu.
Lögreglan segir að maðurinn muni að öllum líkindum sæta ákæru vegna málsins að rannsókn lokinn enda það litið alvarlegum augum.
Heimild: Visir.is