Home Fréttir Í fréttum Isavia skuldi Vaðlaheiðargöngum 50 milljónir

Isavia skuldi Vaðlaheiðargöngum 50 milljónir

210
0
Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Vaðlaheiðargöng hf. hafa ekki fengið greiddar tæpar 50 milljónir króna vegna flutninga á efni úr göngunum í flughlað á Akureyrarflugvelli.
Efnið var flutt að frumkvæði stjórnar Vaðlaheiðarganga en framkvæmdasjórinn segir þetta í raun skuld Isavia við félagið.

Uppbygging flughlaðs á Akureyrarflugvelli hófst í janúar 2016 þegar farið var að aka þangað efni sem til féll við gröft Vaðlaheiðarganga. 50 milljónum króna af samgönguáætlun hafði þá verið veitt í efnisflutningana.

<>

Það er aðeins brot af heildarkostnaði við gerð flughlaðs og þessir fjármunir kláruðust fljótt.

Ákváðu að flytja efnið í von um að fá greitt síðar

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að stjórn félagsins hafi engu að síður ákveðið að halda áfram að flytja efni úr göngunum í flughlaðið.

„Það var bara tekin ákvörðun um það hjá stjórn Vaðlaheiðarganga að efninu væri betur varið í samfélagsverkefni, eins og byggingu á flughlaði, með þeirri von að greiðsla myndi fást fyrir efnið þó það verði síðar.”

„Í okkar huga er þetta klárlega skuld“

Hann segir að þetta hafi kostað á bilinu 40 til 50 milljónir króna. Það sé kostnaður við akstur efnisins, efnið sjálft hafi ekki verið verðlagt. Og þótt fjárhæðin hafi ekki verið bókuð sem skuld, í ársreikningi Vaðlaheiðarganga, sé tekið fram í skýringum að ekki hafi fengist greiðsla fyrir vinnuna vegna óvissu um fjármögnun flughlaðsins.

„Í okkar huga er þetta klárlega skuld þar til að þetta verður greitt. En eins og ég segi, við gerum okkur vonir um að við fáum greiðslu fyrir efnið þegar kemur fé frá ríkinu í uppbyggingu á flughlaðinu.

Þá verðum við náttúrulega fljótir að banka uppá og láta vita af okkur.“
„Þannig að þetta leggst þá ofan á kostnað við gangagerðina?“
„Já, eins og staðan er í dag,” segir Valgeir.

Heimild: Ruv.is