Home Fréttir Í fréttum Undirbúa stækkun verksmiðjunnar á Bakka

Undirbúa stækkun verksmiðjunnar á Bakka

188
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Yfirmaður hjá PCC segir afar líklegt að kísilverksmiðjan á Bakka verði stækkuð í náinni framtíð. Mikil eftirspurn sé eftir kísilmálmi og viðskiptavinum fari fjölgandi. Með tiltölulega litlum breytingum megi tvöfalda afkastagetu verksmiðjunnar.

Verksmiðjusvæði PCC á Bakka er að stórum hluta hannað fyrir verksmiðju með fjórum ljósbogaofnum. Tveir ofnar verða starfræktir miðað við núverandi stærð. Byggingar fyrir hráefni og allur búnaður þar ræður við stærri verksmiðju, einnig reykhreinsivirki, tengingar við raforkukerfið og fleira. Hinsvegar þyrfti að byggja nýtt ofnhús til að rúma tvo ofna í viðbót.

<>

Fyrsta stig verkefnisins með tvo ofna

„Áhugi okkar á stækkun er mikill,“ segir Dr. Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.  „Við áætlum verksmiðjuna með fjórum ofnum, þannig að þetta er fyrsta stig verkefnis okkar hér, með tvo ofna. Heildar afkastagetan yrði þá tvöföld miðað við stærðina eins og hún er núna.“

Þegar farnir að undirbúa stækkun

Og þó svo að enn sé nokkuð langt í að starfsemi verksmiðjunnar á Bakka verði komin í endanlegt horf, þá eru eigendur PCC farnir að undirbúa stækkun. „Já við hófum það verkefni fyrir um það bil einu einu ári síðan,“ segir Wenzel. „Þá stendur valið um að stækka með núverandi hönnun eða fara eilítið aðra leið. En líklega færum við sömu leið og áður varðandi ofna þrjú og fjögur.“

Gætu lokið fjármögnun á einu og hálfu ári

Hann segir aðalverkefnið nú að koma núverandi verksmiðju í full afköst. En viðræður um stækkun séu hafnar við ýmsa samstarfsaðila um tæknilegar útfærslur, en einnig við birgja og kaupendur. Þá þurfi að tryggja fjámögnun og margt fleira áður en ákvörðun verði tekin. „Það líður að minnsta kosti eitt til eitt og hálft ár, héðan í frá, þar til fjámögnun er lokið. Og þegar það er í höfn gæti hönnun hafist. Hönnunartíminn yrði svipaður og í fyrra verkefni, kannski 4-6 mánuðum styttri.“

Mikil eftirspurn eftir framleiðslunni

„Er þá líklegt að þessi verksmiðja verði starfrækt stærri í framtíðinni?“ 
„Alveg örugglega! Það er krafa um það frá okkar viðskiptavinum. Þeir hafa óskað eftir meiri framleiðslu og þá eru nýir viðskiptavinir að bætast við. Þannig að það er eftirspurn eftir kísilmálmi og ég held að þetta verkefni okkar hafi hlotið góðan hljómgrunn í þessum geira. Og við viljum standa undir þessum kröfum,“ segir Wenzel.

Hemild: Ruv.is