Home Fréttir Í fréttum Stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli

Stórframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli

311
0

Fullt var út úr dyrum á opnum morgunfund Isavia á Hilton Reykjavík Nordica þar sem fjallað var um ferðasumarið 2018, framtíð og stöðu ferðaþjónustunnar og fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Farið var yfir farþegaþróun innan flugvallarins og áætlaðan fjölda ferðamanna sem sækir landið heim í sumar.

<>

Farþegaspá Isavia var uppfærð og sérstaklega rætt um áhrif og mikilvægi skiptifarþega – en gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra vaxi enn frekar á þessu ári og í raun meira en áður var ráð fyrir gert. Þá fór Bjarnheiður Karlsdóttir, nýkjörinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, yfir fjölgun starfa og fyrirtækja í ferðaþjónustunni á Íslandi síðan árið 2010 og rekstrarumhverfi starfsgreinarinnar. Að lokum var einblínt á uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar og þær framkvæmdir og áskoranir sem fram undan eru á næstu árum.

Fjölgun farþega í haust – fleiri skiptifarþegar
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, ávarpaði fundinn í upphafi og fór yfir inntak erindanna. Þar ræddi hann meðal annars breytta farþegaspá en benti á að erlendum ferðamönnum muni áfram fjölga árið 2018. Útlit sé fyrir fækkun í sumar en aukningu aftur í haust. Það geri það að verkum að ferðaþjónustan sé að fá styrkari stoðir undir heilsárs atvinnugrein.

Þá séu það góðar fréttir að skiptifarþegum, sem millilendi á Keflavíkurflugvelli, fjölgi. Það auki samkeppnishæfi vallarins vegna þeirra – ekki síður en annarra farþega – og sé því þörf á frekari uppbyggingu.

Hlutfall og mikilvægi skiptifarþega eykst
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli, fjallaði um farþegaþróun á Keflavíkurflugvelli síðastliðin ár og spá Isavia fyrir árið 2018. Kom þar meðal annars fram að 28 flugfélög munu fljúga til landsins í sumar og verða áfangastaðirnir um 100. Einnig fór Hlynur yfir fjölda skiptifarþega og hlutfall af heildarfarþegum sem er 41% samkvæmt spá fyrir 2018 og er meiri en spáð hafði verið fyrir.

Benti hann á að þetta stafi af breytingum hjá bæði Icelandair og Wow Air þar sem fleiri sæti fari nú undir skiptifarþega en farþega sem heimsækja landið. Til að mynda hafi bæði flugfélögin aukið við framboð sitt til borga í Norður-Ameríku sem eigi sinn þátt í þessari aukningu. Samkvæmt uppfærðri farþegaspá fyrir 2018 mun farþegum fjölga í heild um 15%. Mest verður aukningin á skiptifarþegum en þeim fjölgar um 37% í ár.

Uppfærð spá er varðar Íslendinga sem fara um flugvöllinn sýnir að meðalaukning verði 8,3% á árinu en aftur á móti verði meðalaukning erlendra farþega 2,6% á sama tíma. Það er minni aukning en kom fram í farþegaspá Isavia sem birt var í lok nóvember í fyrra.

Í uppfærðri farþegaspá er gert ráð fyrir að erlendum komufarþegum fækki í sumar en aukning verði nokkuð meiri á vetrarmánuðum.
Hlynur fór einnig yfir ánægjukönnun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Þar kom fram marktækur munur á því hversu mjög ánægðir þeir væru með aðstöðu og þjónustu í flugstöðinni frá því sem var í fyrra.

Er flughæð náð?
Í erindi sínu spurði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hvort ferðaþjónustan á Íslandi hefði náð flughæð eftir gríðarmikinn vöxt síðan árið 2010. Störfum hefði fjölgað mikið, eða um 15,9% á síðustu 8 árum sem og fyrirtækjum í ferðaþjónustu einnig.

Rekstrarumhverfið hefði hins vegar tekið breytingum með styrkingu gengis og hærri launakostnaði. Til viðbótar hefði umfjöllun erlendra fjölmiðla síðustu misseri um áfangastaðinn Ísland verið frekar neikvæð og óvægin, það sé hlutverk okkar allra að vanda orðræðu um íslenska ferðaþjónustu.

Sterkt gengi krónunnar hefur mikil áhrif á ferðir Íslendinga erlendis en að sama skapi finni ferðaþjónustan hér á landi vel fyrir þessari gengisþróun þar sem Ísland sé nú dýrasta landið að heimsækja. Það sé þó mikilvægt að gera sér grein fyrir að nú er verið að meta ferðaþjónustuna í samanburði við góðærisár í kjölfar eldgoss og efnahagshruns og því hafi ferðaþjónustan ekki náð flughæð. Við séum rétt að byrja.

Næstum því heil Smáralind og 22,5 fótboltavellir
Að lokum kynnti Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli, þá uppbyggingarþróun sem fram undan er á flugvellinum sem helst í hendur við uppfærðar farþegaforsendur.

Spá frá árinu 2015 sýnir að í ár hefur flugvöllurinn náð þeim fjölda farþega sem gert var ráð fyrir að kæmu til Íslands árið 2030. Sú spá var gerð fyrir þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar.

Í erindi Guðmundar Daða var sýnt myndband sem farið var yfir þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á Keflavíkurflugvelli allt frá árinu 1987 og til loka uppbyggingaráætlunar. Fram undan eru yfirgripsmiklar framkvæmdir innan flugvallarins þar sem landgangurinn verður meðal annars breikkaður til muna, eða um 30.000 fermetra, verslunarsvæði verður stækkað, ný landamæri byggð og biðsvæði og brottfararhlið bætt.

Ljóst er að Isavia stendur fyrir miklum áskorunum á meðan á framkvæmdum stendur, þá sérstaklega er varðar flæði farþega og farþegaupplifun. Áætlað er að frá árinu 2012 til 2021 verði búið að byggja það sem samsvarar nærri því heilli Smáralind, eða um 60.000 fermetrum, og verða fjarstæði flugvéla á við 22 og hálfan fótboltavöll – eða sem nemur heimaleikvöngum allra tuttugu liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og gott betur en það.

Að lokum kynni Guðmundur Daði síðan nýja upplýsingasíðu um framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll sem verður uppfærð eftir því sem verkefninu vindur fram.
Síðuna má finna á www.isavia.is/uppbyggingKEF

Heimild: Vf.is