Home Fréttir Í fréttum Sjáum fyrir endann á stærstu verkefnunum á næstu tveimur til þremur árum

Sjáum fyrir endann á stærstu verkefnunum á næstu tveimur til þremur árum

511
0
Mynd: Eyjafrettir.is

Ísfélagið og Vinnslustöðin hafa dregið vagninn ásamt bænum og HS Veitum

<>

Í meira en 30 ár hefur byggingaverktakafyrirtækið Steini og Olli verið áberandi í byggingaframkvæmdum í Vestmannaeyjum og setja byggingar sem fyrirtækið hefur byggt, svip sinn á bæinn. Steini og Olli hafa tekið þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur í Vestmannaeyjum síðustu tíu árin.

Enn er mikið að gera, starfsmenn fyrirtækisins eru 40 alls, og verkefnastaðan góð næstu tvö árin. Þó er eins og toppurinn sé að nálgast á þessu framkvæmdatímabili, en þá gera forráðamenn fyrirtækisins ráð fyrir að taki við minni nýframkvæmdir, nauðsynlegt viðhald, breytingar og endurbætur á húsum og nóg verði að gera þó spennan verði minni.

Segja má að Steini og Olli hafi verið afgerandi í þeirri uppbyggingu sem orðin er í Vestmannaeyjum frá gosinu 1973 þegar um 400 íbúðir grófust undir ösku og hraun. Upphafið má rekja til þess þegar húsasmíðameistararnir Ársæll Sveinsson og Steingrímur Snorrason byrjuðu að starfa saman árið 1982. Þeir stofnuðu svo formlega fyrirtækið Steina og Olla árið 1988 en síðar komu að því fleiri aðilar sem hluthafar. Það var svo árið 2009 að hjónin Magnús Sigurðsson, sem stýrir fyrirtækinu ásamt Inga bróður sínum, og Ester Sigríður Helgadóttir kaupa fyrirtækið af fyrri eigendum. „Þau hjónin eru eigendur fyrirtækisins og við bræður vinnum þetta í sameiningu. Ég er í pappírsmálunum og fjármálunum og er einnig menntaður byggingatæknifræðingur. Magnús er framkvæmdastjórinn og er mun meira á vettvangi framkvæmda daglega, en að öðru leyti vinnum við þetta saman,“ segir Ingi sem gekk til liðs við Steina og Olla haustið 2014.

Stór hluti af byggingarsögunni

Eins og áður segir má víða sjá verk þeirra hér í bæ. Má þar nefna húsnæði Bónuss og Húsasmiðjunnar, tengivirki HS Veitna og Landnets við FES, frystiklefa og tengibyggingar Ísfélagsins, Eimskipshöllina og nýja Íþróttasalinn, Baldurshaga og stækkun við Hótel Vestmannaeyjar. „Einnig byggðum við fyrri frystiklefa Vinnslustöðvarinnar og komum að stækkun vinnsluhúsnæðis Löngu, bæði byggingar á Eiðinu.“

Auk byggingaframkvæmda reka þeir steypustöð og eru nú að koma sér fyrir á Flötunum með verkstæði sitt, lager og skrifstofur, í húsi sem flestir þekkja sem Netagerð Ingólfs. „Í allt vinna 40 manns hjá fyrirtækinu, þar af 18 húsasmiðir, þrír menn í Steypustöðinni, þrjú á skrifstofunni og við stjórnun og svo erum við m.a. með fjóra útlendinga.

Stærstu verkefnin núna eru Varmadælustöðin fyrir HS Veitur við Hlíðarveg og íbúðirnar sem Stefán Lúðvíksson í Eyjablikk er að byggja ofan á Fiskiðjuna. Þá höfum við nýlokið endurbótum og breytingum á annarri hæð Fiskiðjunnar þar sem Þekkingasetrið er til húsa,“ segir Ingi.

Nóg framundan

Þegar Ingi er spurður um framhaldið segir hann að næsta verkefni sé uppbygging á Ísfélagsreitnum í samstarfi við Vestmannaeyjabæ. „Hugmyndir Vestmannaeyjabæjar eru að koma upp nýju sambýli þar og einnig verða þarna íbúðir til útleigu fyrir fatlaða einstaklinga.

Steini og Olli mun svo stefna á að byggja íbúðir fyrir hinn almenna markað. Við erum líka að hefja framkvæmdir við Eyjahraunið þar sem verða byggðar nýjar þjónustuíbúðir fyrir aldraða einstaklinga sem tengjast svo við Hraunbúðir með tengibyggingu.“

Ekki enn í hendi

Ingi segir að mikið hafi verið að gera í byggingariðnaði í Vestmannaeyjum á síðustu tíu til tólf árum. „Steini og Olli hafa tekið virkan þátt í þessari uppbyggingu eins og sést á þeim verkefnum sem við höfum komið að. Næsta stóra verkefnið fyrir utan Ísfélagsreitinn er svo aðstaðan sem erlenda fyrirtækið Merlin ætlar að koma hér upp sunnan við Fiskiðjuna.

Það er komið byggingarleyfi frá bæjaryfirvöldum en eftir er að ganga frá samningnum við verktaka hér innanbæjar. Það er samt aldrei neitt fast í hendi fyrr en búið er að skrifa undir alla samninga.“

Ingi gerir ráð fyrir að á næstu tveimur til þremur árum sjáist fyrir endann á þeim stærstu framkvæmdum sem verið hafa í gangi. Þar hafi stöðvarnar, Ísfélagið og Vinnslustöðin dregið vagninn ásamt Vestmannaeyjabæ og HS Veitum. Þá hefur verið byggt og er í byggingu mikið af íbúðarhúsnæði.

„Þessum stærstu framkvæmdum lýkur á næstu misserum og árum og eins og er, þá hafa ekki verið tilkynnt frekari áform um stórar framkvæmdir á næstunni, sem vonandi verður þó að veruleika. Það er farið að þrengja að með lóðir við höfnina sem hefur einnig sín áhrif.

Verkefni næstu ára verða að mínu mati því fremur í formi minni nýbygginga, viðhalds og breytinga og þar verður vonandi af nógu að taka,“ sagði Ingi.

Ingi segir skipta miklu að hér eru öflug fyrirtæki, Ísfélagið, Vinnslustöðin og HS Veitur auk þess sem bæjarsjóður hefur byggt mikið. „Þau hafa haldið þessu vel uppi undanfarin ár og vonandi heldur það áfram á næstunni. Framtíðin ræðst af því hvað þessir stóru gera því framkvæmdir einstaklinga eru svipaðar frá ári til árs,“ sagði Ingi að endingu.

Heimild: Eyjafrettir.is