Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð fyrir hádegisverðarfundi á Nauthól í Reykjavík í dag um Borgarlínuna. Þar rökræddu Þorsteinn Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar og Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, kosti og galla á henni.
Meðal annars var rætt um kostnaðinn, sem er áætlaður 70 milljarðar króna. „Það hefur í mörg ár ekki verið sinnt þessum framkvæmdum á stofnbrautum til að greiða götu þessarar miklu og vaxandi umferðar. Ég held að það sé númer eitt og í það eigi peningarnir að fara núna. Það mun nýtast öllum, bæði almenningssamgöngum og einkabílnum,“ segir Frosti.
„Í fyrra svæðisskipulagi voru uppi áætlanir um að byggja upp stofnvegakerfi fyrir 150 milljarða á núvirði, þannig að það eru stórar fjárhæðir líka þeim megin. Við verðum að horfa til þess núna árið 2018 að fara blandaða leið í almenningssamgöngur og stofnvegakerfi,“ segir Þorsteinn.
Ein aðalgagnrýni Frosta er að sérstakar akreinar séu teknar undir borgarlínuna. Þorsteinn telur það nauðsynlegt. „Til þess að þetta verði samkeppnishæft og þetta verði áreiðanlegt, að vagninn sitji ekki fastur í almennri umferð.“
Frosti lítur öðruvísi á málið. „Vagn sem kemur kannski hálftómur á sjö mínútna fresti, nema kannski á háannatíma getur verið að hann sé fullur. En 150 manna vagn kemur hálftómur á sjö mínútna fresti eftir þessum fráteknu akreinum. Það finnst mér sóun á akrein.“
Þetta segir Þorsteinn vera misskilning. „Þær forgangsreinar sem við erum að nota í dag eru líka notaðar af hópferðabílum og leigubílum, þannig að það er alls ekki útséð, og raunar mjög líklegt, að borgarlína, strætisvagnar og leigubílar að lágmarki muni nota þessar sérakreinar sem verða byggðar.“
Frosti telur Borgarlínuna ekki réttu liðina til að efla almenningssamgöngur. „Ég held að það megi vel auka tíðni á álagstímum og halda áfram að greiða götu strætó en ekki fráteknar akreinar sem enginn annar má nota. Þá er þetta komið of langt.“
Heimild: Ruv.is