Home Fréttir Í fréttum Hringvegurinn gæti styst um fjörutíu kílómetra

Hringvegurinn gæti styst um fjörutíu kílómetra

341
0
Hér má sjá vegarkaflana sjö þar sem hægt er að ná samtals fjörutíu kílómetra styttingu hringvegarins. Grafík/Guðmundur Björnsson, Stöð 2.

Hringvegurinn um Suðausturland, frá Öræfum til Berufjarðar, gæti styst um nærri fjörutíu kílómetra, miðað við framkvæmdir sem ýmist eru hafnar eða á teikniborðinu hjá Vegagerðinni. Einn anginn eru göng undir Lónsheiði. Um þetta var fjallað í fréttum Stöðvar 2.

<>

Brúin yfir Jökulsá í Lóni er ein af mörgum einbreiðum brúm á hringveginum. Það er hins vegar ekki ætlunin að byggja nýja brú á sama stað heldur hyggst Vegagerðin byggja hana neðar í Lóni og ná um leið fram umtalsverðri styttingu, upp á fimm til fimm og hálfan kílómetra, að sögn Reynis Gunnarssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Hornafirði.

Úr Lónssveit. Fyrirhugað er að færa þjóðveginn nær ströndinni með nýrri brú yfir Jökulsá í Lóni.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Í Lóni er önnur stærri breyting til skoðunar; jarðgöng undir Lónsheiði til að losna við kaflana um Hvalsnes- og Þvottárskriður, sem lokast oft vegna snjóflóða og skriðufalla. Reynir segir að verið sé að tala um þriggja kílómetra göng sem myndu stytta leiðina um tólf kílómetra.

Leiðin um Hvalsnes- og Þvottárskriður var opnuð fyrir um fjörutíu árum en áður lá þjóðvegurinn um Lónsheiði. Það gæti því farið svo að þar yrði framtíðarleiðin á ný en Reynir segir enga spurningu að göng yrðu til mikilla bóta.

„Það er stórhættulegur vegur um skriðurnar og veðravíti þar, – sem verður svo sem aldrei hægt að laga. Þetta verður aldrei örugg leið út af grjóthruni,“ segir Reynir.

Í Hvalsnes- og Þvottárskriðum ógna grjóthrun, snjóflóð og skriðuföll vegfarendum.Mynd/Stöð 2.

Vegagerðin er þegar búin að bjóða út fyrsta áfanga nýrrar brúar yfir Hornafjörð, framkvæmdir eru hafnar í Berufjarðarbotni og við höfum einnig greint frá áformum um styttingu hringvegarins í Öræfum.

Og fleiri styttingar eru til skoðunar á Suðausturlandi, um Hofsá í Álftafirði og Hamarsá, sem gæti þýtt um eins kílómetra styttingu á hvorum stað.

Alls gætu þannig sjö kaflar styst frá Öræfum í vestri til Berufjarðar í austri, en mestar styttingar fengjust í Hornafirði og á Lónsheiði. Samtals gæti hringvegurinn á Suðausturlandi styst um nærri fjörutíu kílómetra, en til samanburðar má geta þess að hann styttist um 42 kílómetra með Hvalfjarðargöngum.

Heimild: Visir.is