Bæjarráð Árborgar samþykkti í gær að skipa fimm fulltrúa í undirbúningshóp vegna hugmynda- og undirbúningsvinnu við byggingu nýs grunnskóla í Björkurstykki, sunnan við byggðina á Selfossi.
Í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu segir að við vinnuna verði horft til starfshátta og heildarskipulags skóla og skólalóðar út frá skólastefnu Árborgar, reynslu og nýjustu þekkingu í kennslufræðum. Hópurinn mun leita eftir ábendingum og hugmyndum frá ýmsum aðilum skólasamfélagsins í Árborg og kynna sér nýlegar skólabyggingar í öðrum sveitarfélögum með það að meginmarkmiði að ný skólabygging verði heildstæð og hlýleg. Bygginging þarf meðal annars að taka mið af þörfum nemenda og starfsfólks og hæfa vel starfseminni.
Hópinn skipað Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar, Magnús Gíslason, fulltrúi í fræðslunefnd, Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og fulltrúi í fræðslunefnd, Eyrún B. Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi, og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri.
Vinna við gerð deiliskipulags Björkurstykkis er hafin, en umrætt land er í Sandvíkurhreppnum, sunnan við Suðurhóla, meðfram Eyravegi og Eyrarbakkavegi.
Heimild: Sunnlenska.is