Tveir menn létu lífið á vikutímabili við störf núna í júlí. 17. júlí féll maður á sextugsaldri úr byggingakrana á vinnusvæði í Hafnarfirði og fjórum dögum lést maður eftir að hann klemmdist í vinnuvél hjá Plastgerð Suðurnesja.
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, segir slysin vera til rannsóknar.
„Það er mikilvægt að horfa til þess að svona má aldrei gerast. Það eru heilög mannréttindi okkar, að koma heil heim úr vinnunni.“
Kristinn hefur áhyggjur af því að spenna í samfélaginu auki áhættu á vinnuslysum.
„Þetta er spenna sem felst í því að það eru mörg verkefni í gangi og mikil eftirspurn og margar óvanar hendur í verkefnum,” segir hann.
Vinnuslysum hefur þó ekki fjölgað milli ára. Frá janúar til júlí á síðasta ári var tilkynnt um 1.131 vinnuslys til Vinnueftirlitsins og var tvöfalt fleiri karlar sem lentu í slysum.
Frá janúar til júlí á þessu ári hefur verið tilkynnt um 818 slys en Kristinn tekur fram að líklega eigi fleiri tilkynningar eftir að berast og gerir ráð fyrir svipuðum fjölda og í fyrra.
Flest slys verða í janúar og febrúar vegna veðurskilyrða.
„Á sumrin eru þessar áhættur í lágmarki. Í raun ætti, ef vel ætti að vera, sárafá slys á sumrin. En því miður er það ekki þannig.”
Tvenns konar vinnuslys eru algengust. Slæm umgengni á vinnustað og ýmis konar fallslys, bæði úr hæð og jafnsléttu.
„Þetta eru slys, þegar maður fer yfir þau verður að ætla að hægt væri að fyrirbyggja með einföldum aðgerðum.“
Heimild: Visir.is