Home Fréttir Í fréttum Ný byggð rís á lóðinni þar Eden var í Hveragerði

Ný byggð rís á lóðinni þar Eden var í Hveragerði

221
0
Frá undirritun samkomulags Mynd: Vb.is

Á dögunum var nýtt deiliskipulag samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar en markmið uppbyggingar á svæðinu er meðal annars að styrkja miðbæjarkjarna bæjarins og um leið auka lóðaframboð til íbúðabygginga. Framkvæmdasvæðið liggur á milli Austurmarkar og Mánamarkar í austurhluta Hveragerðis á lóðum þar sem Eden og Tívolíið voru áður.

<>

Það er fasteignaþróunarfélagið Suðursalir ehf. sem stendur að framkvæmdunum í samstarfi við Arion banka.

Áætlaður framkvæmdatími fyrir verkefnið í heild eru 3 til 5 ár og verður byrjað á Edenreitnum. Þar verða reist tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús með tveggja til fjögurra herbergja íbúðum frá 60-100m2 að stærð. Heildarfjöldi íbúða á þessum reit verður um 60 til 70. Áætlað er að framkvæmdir hefjist nú í haust og að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar á síðari hluta árs 2018.

Í öðrum fasa verkefnisins verður ráðist í byggingu einnar til þriggja hæða húsa á Tívolílóðinni svokölluðu en þar verður blönduð þjónustu- og verslunarstarfsemi ásamt íbúðum á efri hæðum.

Valkostur fyrir ungt fólk

Gísli Steinar Gíslason hjá Suðursölum ehf. segir að markmið framkvæmdanna sé að bjóða ódýrar en áhugaverðar íbúðir. Þessi valkostur er m.a. hugsaður fyrir ungt fólk í fyrstu fasteignakaupum og aðila á leigumarkaði sem vilja færa sig í eigið húsnæði. Einnig hentar þetta fólki sem vill minnka við sig húsnæði. Vonir standa því til að íbúðirnar verði að einhverju leyti svar við brýnni þörf á litlum og meðalstórum íbúðum á hagstæðu verði.

„Hveragerði er spennandi svæði í nágrenni Reykjavíkur, bæjarfélagið er aðgengilegt m.a. vegna tíðra ferða strætisvagna auk þess sem vel er haldið utan um fjölskyldur og þarfir þeirra. Svo er næsta nágrenni bæjarins náttúrulega sannkölluð útivistarparadís þar sem dásamlegt er að alast upp,“ segir Gísli Steinar.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, lítur framkvæmdirnar björtum augum: „Hveragerði er blómstrandi bæjarfélag og við höfum á undanförnum árum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í bænum en framboð hefur verið takmarkað. Það er því mikið fagnaðarefni að framkvæmdir á þessum þekkta reit í bænum séu að hefjast. Þá er einnig ánægjulegt að verkefnið njóti stuðnings trausts samstarfsaðila eins og Arion banka, sem starfað hefur hér í Hveragerði um árabil.“

Heimild: Vb.is