Tekin var fyrsta skóflustunga að nýju húsi að Hnjúkabyggð 34, á Blönduósi að viðstöddum nokkrum fjölda karla, sem koma til með að vinna við bygginguna.
Húsið verður leigt Mjólkursamsölunni og þar verður miðstöð fyrir mjólkursöfnun í Húnavatnssýslum og Skagafirði.
Með tilkomu þessa húss gjörbreytist vinnuaðstaða bílstjóra til hins betra og munu öll þrif og millidæling verð innandyra, svo og verða allir bílar og hluti tanka geymdir inni. Þá verða í húsinu tvö hvíldarherbergi til afnota fyrir bílstjóra sem eru í flutningum milli Selfoss og Akureyrar.
Burðarvirki hússins er límtré, klætt með yleiningum og stærðin um 550 fermetrar og að mestu á einni hæð. Lögð verðu áhersla á orkusparnað í rekstrinum og m.a. verða tengingar fyrir rafhleðslu bíla.
Verkfræðistofan Stoð ehf. annast hönnun og burðarþolsteikningar. Við bygginguna er lögð áhersla á að semja við verktaka innanhéraðs.
Það var Jakob Svavarsson mjólkurbílstjóri sem tók fyrstu skóflustunguna og notaði til þess fornan holræsaspaða frá fyrrihluta síðustu aldar.
Heimild: Húni.is