Home Fréttir Í fréttum Launþegum fjölgar mest í byggingariðnaði

Launþegum fjölgar mest í byggingariðnaði

59
0

Á 12 mánaða tímabili, frá maí 2016 til apríl 2017, voru að jafnaði 17.079 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 790 (4,8%) frá síðustu 12 mánuðum á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 182.800 einstaklingum laun sem er aukning um 8.500 (4,9%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

<>

Skipt eftir atvinnugreinum hefur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Launþegum hefur hins vegar fækkað í sjávarútvegi.

Í apríl voru 2.478 launagreiðendur og um 11.500 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.600 eða um 16% samanborið við apríl 2016. Sömuleiðis voru í mars 1.614 launagreiðendur og um 25.100 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 3.400 eða um 16% á einu ári. Launþegum hefur á sama tíma fjölgað um 8.500 eða um 5%.

Hafa verður í huga að í þessum tölum eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin.

Tafla 1: Fjöldi laungagreiðenda og launþega í nokkrum atvinnugreinum¹
Launagreiðendur Launþegar apríl
  apríl 2017 2016 2017 Breyting %
Allar atvinnugreinar   16.712 172.600 181.100 8.500 5
Sjávarútvegur (ÍSAT nr. 031, 102) 525 9.500 8.900 -600 -6
Framleiðsla án fiskvinnslu (ÍSAT nr. 10-33 án 102) 1.023 16.300 16.600 300 2
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (ÍSAT nr. 41-43) 2.478 9.900 11.500 1.600 16
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (ÍSAT nr. 45-47) 2.289 25.100 26.400 1.300 5
Fjármála- og vátryggingastarfsemi (ÍSAT nr. 64-66) 366 6.200 6.200 0 -1
Fræðslustarfsemi og opinber stjórnsýsla (ÍSAT nr. 84-85) 559 39.700 40.100 500 1
Heilbrigðis- og umönnunarþjónusta (ÍSAT nr. 86-88) 1.091 15.300 15.700 500 3
Einkennandi greinar ferðaþjónustu (ÍSAT nr. 491, 4932, 4939, 501, 503, 511, 551-553, 561, 563, 771, 7721, 79) 1.614 21.700 25.100 3.400 16
Tækni- og hugverkaiðnaður (ÍSAT nr. 20, 254, 26-30, 325, 53, 58, 60-63, 72) 865 12.700 12.800 200 1
Skapandi greinar (ÍSAT nr. 3212, 58-60, 6201-6202, 7021, 7111, 731, 741-743, 8552, 90, 9101-9102) 1.514 9.100 9.100 0 0
¹ Nánari lýsing á þessum atvinnugreinaflokkum er að finna í lýsigögnum

Endurskoðun hagtalna
Tölurnar sem hér um ræðir eru bráðabirgðatölur. Þar sem byggt er á staðgreiðslugögnum getur verið vanmat í nýjustu tölum þegar launagreiðendur skila ekki inn upplýsingum tímalega. Meðal annarra skekkjuvalda má nefna orlofsgreiðslur til fyrrverandi starfsmanna. Þegar nýjar tölur eru birtar verða jafnframt birtar endurskoðaðar tölur fyrir fyrri tímabil. Nánari lýsingu á skekkjuvöldum, áhrifum þeirra og og endurskoðun birtra talna má finna í lýsigögnum og í talnaefni um endurskoðun hagtalna.

Áður birtar tölur hafa verið endurskoðaðar, þ.e. tekið tillit til nýrra upplýsinga um launagreiðslur og nýjustu upplýsinga um atvinnugreinaflokkun.

Heildarfjöldi launagreiðenda í mars 2017 telst nú vera 16.778 og heildarfjöldi launþega 179.100. Fjöldi launþega jókst um 8.000 (4,7%) frá mars 2016 til mars 2017.

Þegar fréttatilkynning var gefin út í maí 2017 töldust vera 16.035 launagreiðendur og 177.100 launþegar í mars 2017. Fjöldi launþega var þá talinn hafa aukist um 5.900 (3,4%) frá mars 2016 til mars 2017.

Aðrar hagtölur um svipað efni
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggir á skattframtölum og gefur ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina.

Hagstofa Íslands framkvæmir vinnumarkaðsrannsókn (VMR) samfellt allt árið um kring og birtir helstu niðurstöður (atvinnuþátttaka, fjöldi starfandi, atvinnuleysi o.fl.) mánaðarlega og ítarlegri sundurliðun (s.s. starfshlutfall og vinnutími eftir atvinnugreinum) ársfjórðungslega. Í VMR eru einnig upplýsingar um sjálfstætt starfandi og aðeins eru taldir með þeir sem eru skráðir í Þjóðskrá og hafa fasta búsetu á Íslandi. Því er eðlilegt að tölur í þessari frétt séu ekki nákvæmlega þær sömu og í VMR. Tölum um fjölda launagreiðenda og launþega er fyrst og fremst ætlað að sýna þróun til skamms tíma og sveiflur innan árs.

Heimild: Hagstofan.is