Home Fréttir Í fréttum Vilja að Kársnesskóli verði rifinn

Vilja að Kársnesskóli verði rifinn

387
0

Starfshópur um húsnæðismál Kársnesskóla í Kópavogi vill að skólinn verði rifinn vegna myglu. Bæjarstjórn Kópavogs hittist á þriðjudaginn til að taka ákvörðun um hvort sú leið verði farin. Um fimmtán hundruð milljónir kostar að reisa nýtt hús.

Starfshópurinn var skipaður eftir að vart varð við myglu í húsnæði skólans við Skólagerði. Sú bygging hefur hýst nemendur í 1.-4. bekk skólans en eldri nemendur eru í annarri byggingu. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að á fimmtudaginn var hafi tillaga starfshópsins um að húsið verði rifið verið samþykkt. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi segir að starfshópurinn hafi farið vel yfir alla valkosti.

„Þetta er reyndar mjög slæmt tilvik og hérna, þegar búið var að fara vel ofan í málið, var svona stillt upp valkostum. Hvað kostaði að gera við skólann og hvað myndi þá kosta að byggja. Í þessu tilviki þá erum við að horfa á hvað myndi þá kosta að byggja eins skóla, og þar í rauninni munar um það bil 300 milljónum. Það er að segja að það voru sirka 1.250 milljónir sem kostar að endurbyggja skólann en ríflega einn og hálfan að byggja nýjan eins skóla. Þannig að starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegast að rífa skólann og byggja nýjan og leggur það til. Það á hins vegar eftir að fara fyrir bæjarstjórn. Þetta er auðvitað gríðarlega stór ákvörðun,“ segir Ármann Kr.

Bæjarstjórnin fundar á þriðjudaginn um málið og segir Ármann að hann eigi sjálfur enn eftir að taka afstöðu til tillögu starfshópsins. Hann segir að fyrr í vetur hafi verið farið að kanna hvort að myglu væri að finna í húsinu og öll börn færð í önnur hús. Starfsmenn voru þá farnir að finna fyrir einkennum vegna myglu og sumir voru jafnvel frá vinnu.

„Myglan var þarna til staðar og húsið þótti ekki heilsusamlegt enda þetta er 60 ára gamalt hús sem hefur ekki fengið nógu gott viðhald í gengum tíðina,“ segir Ármann.

<>

Heimild: Visir.is