Algjörlega óþolandi
Þorbjörn sagði í samtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun að sömu kjarasamningar eigi að gilda fyrir alla. „Það er það sem er daprast við þetta innstreymi fólks að það liggur alveg fyrir að það er ekki verið að greiða þessu fólki sömu laun og Íslendingunum. Það getur munað alveg gríðarlegu miklu. Okkur sýnist til dæmis núna að meðallaun iðnaðarmanna séu rúmlega 500 þúsund krónur á mánuði. En það er kannski verið að greiða þessum mönnum 250 þúsund krónur fyrir sömu störf.“
„Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi, bæði auðvitað gagnvart þessum starfsmönnum og svo er það auðvitað ljóst að þau fyrirtæki sem manna sig algjörlega með erlendu vinnuafli eru ekki að keppa á sömu forsendum og þau fyrirtæki sem eru eingöngu með íslenska starfsmenn“ segir Þorbjörn. Ég þekki bara engin dæmi um það að það sé verið að ráða hingað erlent vinnuafl og greiða því einhver meðallaun íslenskra starfsmanna. Þeir eru langt undir.“
Gætu verið sameiginlegir hagsmunir að þegja
„En vandinn er líka sá að launasamsetning í Evrópu er mjög misjöfn“ segir Þorbjörn. Hann bendir á að það séu allt önnur laun í Austur- og Suður-Evrópu, en í Vestur-Evrópu. Hann tekur dæmi af Pólverja . „Hann á þess kost að koma til Íslands á helmingi hærri launum heldur en heima hjá sér. Og þó að þau séu helmingi lægri en íslensku launin, þá er hann ekkert að velta þessu mikið fyrir sér ef hann ætlar bara að vera hér í hálft ár. Þetta geta orðið sameiginlegir hagsmunir þessa erlenda verktaka og starfsmannanna að tala ekki um þetta.“
Heimild: Ruv.is