Íslendingar þekkja of vel margar þeirra áskorana sem stéttarfélög í Noregi standa frammi fyrir. Samkvæmt lögreglunni þar í landi eru glæpir á vinnumarkaði ört vaxandi. Fyrir utan hreina glæpastarfsemi eru starfsmannaleigur þyrnir í augum stéttarfélaganna auk tímabundinna ráðningarsamninga.
Þá færist það í vöxt að fólk er ráðið „án launa á milli verkefna“ sem þýðir að fólk fær bara greitt þegar vinnu er að hafa en er án launa þess á milli þrátt fyrir að vera í ráðningasambandi. Þarna er komin ný útfærsla á því sem mörg lönd glíma við sem eru núlltímasamningar, sem sagt ráðningasamningar með breytilegu starfshlutfalli eftir því hvaða verkefni liggja fyrir. Þetta gerir það að verkum að launafólk veit aldrei hvað það fær útborgað eða hvað það vinnur mikið. Afleiðingarnar eru þær að fólk getur ekki gert áætlanir fram í tímann og er eins og daglaunafólk var í gamla daga, án starfsöryggis og öruggrar framfærslu. Þetta er meðal þess sem fram kom í heimsókn SGS til systursamtakanna Fellesforbundet í Noregi á dögunum.
Barátta stéttarfélaganna í Noregi felst meðal annars í því að láta kjarasamninga ná utan um þá sem starfa á vegum starfsmannaleiga en í stórum dráttum ná kjarasamningar einungis yfir þá sem eru í stéttarfélögum (sem eru um helmingur starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum). Þetta er þó ekki algilt og til dæmis í byggingargreinum, landbúnaði og í nokkrum öðrum greinum er komin á svokölluð algilding sem er eins og á Íslandi, að samningur í viðkomandi grein gildir fyrir alla sem starfa í greininni, hvort sem viðkomandi er í stéttarfélagi eða ekki.
Þá hafa Norðmenn skrifað keðjuábyrgð inn í einhverja kjarasamninga og það gildir til dæmis í einhverjum reglum um opinber innkaup. Fyrirtækin þekkja orðið vel afleiðingar þess að fylgja ekki reglum sem gilda um keðjuábyrgð og segja Norðmenn að keðjuábyrgðin sé árangursrík forvörn gegn undirboðum og hafa flest stóru fyrirtækin komið upp ákveðnu regluverki. Til dæmis er óheimilt að vera með fleiri en tvo undirverktaka í byggingariðnaðinum og starfsfólk þar skal bera vinnuskirteini. Trúnaðarmenn spila stórt hlutverk í eftirliti með undiboðum á vinnustöðum.
Umræðan um félagsleg undirboð er stöðug og stéttarfélögin voru í aðstöðu til að gera kröfur um aðgerðir eftir að í ljós kom að við byggingu nýs húss undir skattayfirvöld var fjöldi byggingarverktaka að vinna svart. Eftirlitsaðilar í Noregi eru Vinnueftirlitið, lögreglan og skattayfirvöld á hverjum stað fyrir sig en stéttarfélögin veita þessum aðilum upplýsingar um hvar pottur sé brotinn. Sveitarfélögin í Noregi hafa keppst við að setja reglur fyrir sitt svæði og halda utan um skráningu starfsmanna hjá verktökum og starfsmannaleigum. Norðmenn hafa komið sér um regluverki sem veitir sveitafélögum heimild til að beita viðurlögum gegn þeim sem verða uppvísir af brotum á regluverkinu.
Í stuttu máli þá eru áskoranir Norðmanna svipaðar og á Íslandi en við búum svo vel að hafa nær alla í stéttarfélagi og getum því veitt meira aðhald. Í Noregi er starfsfólk sem þarfnast stéttarfélaga mest iðulega utan félaga.
Heimild: sgs.is