Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg ætla að standa saman að stækkun íþróttaaðstöðu Gróttu á Seltjarnarnesi til að bæta aðstöðu til fimleikaiðkunar. Þetta staðfestir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í samtali við mbl.is. Hugmyndin er að gera viðbyggingu við núverandi íþróttaaðstöðu, en nýja byggingin verður aðeins undir fimleika. Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði klár á næstu 2-3 árum ef allt gengur að óskum.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kom í heimsókn á fimleikaæfingu Gróttu fyrr í dag og lét vita af samstarfinu. Upphaf viðræðna sveitarfélaganna nær til samþykktar á fundi sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2010, en þá stefndu sveitarstjórarnir á aukið samstarf í íþróttamálum á höfuðborgarsvæðinu.
Ásgerður segir að samstarfið eigi vel við á sviði fimleika, en 80% að iðkenndum í fimleikum í Gróttu eru frá Reykjavík. Segir hún að enn eigi eftir að klára viðræður um hvernig fjármögnun verði nákvæmlega og stærð hússins, en að báðir aðilar séu mjög spenntir fyrir þessu skrefi.
Heimild: Mbl.is