Home Fréttir Í fréttum Liður í námi verðandi húsasmiða í VMA á Akureyri er að byggja...

Liður í námi verðandi húsasmiða í VMA á Akureyri er að byggja sumarbústað frá grunni

207
0
Nýi sumarbústaðurinn að taka á sig mynd. Mynd: VMA

Liður í námi verðandi húsasmiða í VMA er að byggja sumarbústað frá grunni. Þetta gera nemendur á öðru ári, þeir byrja að byggja bústaðinn fljótlega eftir að skóli hefst að hausti og áður en vorannarpróf hefjast hafa þeir lokið verkinu. Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingadeildar VMA, segir að bygging sumarbústaðarins sé mjög mikilvægt og lærdómsríkt verkefni fyrir nemendur, í því felist lærdómur á við marga fyrirlestra í kennslustofu. Hér sé um að ræða raunhæft verkefni þar sem nemendur þurfa að takast á við margt af því sem þeir þurfi að leysa úr þegar út á vinnumarkaðinn kemur.

<>

Fljótlega eftir að skólinn hófst í haust hófu ellefu nemendur á öðru ári að leggja grunn að sumarbústaðnum. Undirstöðugrindin var sett saman innan dyra og sömuleiðis útveggjagrindur og sperrur. Um miðja síðustu viku var síðan komið að því að taka grindina út og koma veggjunum á sinn stað ofan á henni. Allt féll þetta saman eins og flís við rass og því dagljóst að nemendur og kennarar höfðu sannarlega vandað til verka.

Sumarbústaðurinn er rétt um 50 fermetrar að grunnfleti og verður á flestan hátt samskonar og bústaður sem annars árs nemar í byggingadeild smíðuðu sl. vetur. Þó verður þakið á þessum bústað lengra og myndar skjól yfir verönd hússins.

En það eru ekki bara nemendur í byggingadeild sem fá að spreyta sig við byggingu sumarbústaðarins því einnig koma þar nemendur í rafiðnaðardeild við sögu og leggja rafmagn í bústaðinn síðar í vetur. Þetta verkefni er því lærdómsríkt og kærkomið fyrir fjölda nemenda í VMA. Og víst er að sá sem kemur til með að kaupa þennan bústað á næsta ári verður ekki svikinn af smíðinni. Hér er vandað til verka. Sá sem keypti bústaðinn sem VMA-nemendur byggðu sl. vetur setti hann niður á Kleifum í Ólafsfirði.

Heimild: VMA.is