Jónas Már Torfason, frambjóðandi í oddvitasæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi, segir að saga endurbyggingar Kársnesskóla sé hrakfallasaga sem bæjarstjóri víki sér undan því að svara fyrir. Þetta kemur fram í pistli á Facebook-síðu Jónasar:
„Málefni endurbyggingar Kársnesskóla við Skólagerði, sem síðar fékk nafnið Barnaskóli Kársness, er hrakfallasaga frá upphafi. Hún er afleiðing vanrækslu á viðhaldi, sem leiddi til þess að rífa þurfti skólann og byggja upp á nýtt. Í uppboði verksins var ódýrasta tilboðinu tekið. Hér var vafalaust fyrir hendi metnaður um að nýta fjármuni sveitarfélagsins vel. En það getur verið dýrt að telja aura frekar en krónur og var það sannarlega í þessu tilviki.
Erlendir verktakar sem greinilega voru ekki verkefninu vaxnir fengu verkið í sinn hlut, í stað rótgróinna íslenskra verktaka, sem þekkja íslenskar byggingar og kröfur sem gerðar eru til þeirra, og voru með litlu hærra tilboð. Hér ber bærinn ábyrgð á að haga sínum útboðsmálum þannig að ekki einungis sé litið til verðs heldur einnig gæða, og fylgja eftir framkvæmdum á sínum vegum þannig að gripið sé í taumana áður en komið er í óefni.
Að ósögðu mikilvægi þess að sinna viðhaldi á opinberum byggingum svo ekki þurfi að leggja í svona skógarferðir. Svo fór að annað verktakafyrirtæki tók síðan yfir verkefnið eftir vanefndir þeirra fyrstu en þá hafði kostnaður þegar farið fram úr öllu hófi. Ólukka bæjarbúa hefur haldið áfram og fór nýi verktakinn óvænt í gjaldþrot á meðan framkvæmdum stóð.“
Skólahald hafið í ókláruðum skóla
Jónas segir að kostnaður við verkið hafi tvöfaldast miðað við áætlanir og ekki sjái fyrir endann á honum. Skólahald sé hafið í ókláruðum skóla. Áföll geti vissulega orðið þegar sveitarfélög standa í framkvæmdum en ekki sé boðlegt að bæjarstjóri víki sér undan því að svara fyrir framkvæmdirnar og hvernig farið hefur verið með skattfé bæjarbúa.
Sakar hann yfirvöld í Kópavogi um að standa á bremsunni þegar kemur að upplýsingagjöf til bæjarbúa um mikilvæg mál:
„Það er því miður ekki einsdæmi að upplýsingamiðlun Kópavogsbæjar sé ekki nægilega góð, af því eru mýmörg dæmi á kjörtímabilinu vegna ýmissa framkvæmda og skipulagsbreytinga. Bæjaryfirvöld þurfa að treysta bæjarbúum fyrir því að taka við upplýsingum og meta það á sanngjarnan hátt og bæjarstjóri verður að treysta sér að eiga samtal við kjósendur sína um erfið mál. Annað er til þess fallið að skapa vantraust og tortryggni til bæjaryfirvalda.“

Heimild: DV.is












