Home Fréttir Í fréttum Stofna sam­eignar­sjóð fyrir Grensás­veg 1

Stofna sam­eignar­sjóð fyrir Grensás­veg 1

31
0
Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins G1. Ljósmynd: Aðsend mynd

Um 35 íbúðir á Grensásvegi 1 eru tilbúnar til afhendingar og um 15 íbúðir verða afhentar í maí.

Fjöldi nýrra íbúða við Grensásveg 1 bjóðast nú til sölu með allt að 25% eignarhluta nýs sjóðs; Fasteignabrú.

Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins G1 ehf., segir í tilkynningu að með þessu fyrirkomulagi geti kaupendur notið aðstoðar við fjármögnun án þess að afsala sér nokkrum rétti til notkunar eignarinnar.

„Kaupandi hefur full umráð yfir eigninni, hvort sem hann hyggst búa þar sjálfur eða leigja hana út til skemmri eða lengri tíma,“ segir Stefán. „Markmiðið er að liðka fyrir sölu nýbygginga þannig að markaðurinn haldi áfram að virka, bæði fyrir kaupendur og verktaka, þrátt fyrir þá flöskuhálsa sem hafa hægt á íbúðasölu undanfarið.“

Sjóðurinn er stofnaður í samstarfi við Stefni, dótturfélag Arion banka, sem hefur þegar komið að stofnun sex annarra samskonar sjóða.

Um 35 íbúðir á Grensásvegi 1 eru tilbúnar til afhendingar strax við undirritun kaupsamnings og um 15 íbúðir verða afhentar í maí 2026.

„Það ætti því fátt að vera því til fyrirstöðu að fólk geti keypt íbúð og flutt inn fljótlega, að því gefnu að það standist greiðslumat. Fasteignabrú hjálpar til við kaupin og getur átt allt að 25% í eigninni á móti kaupandanum. 75% hlutur sem kaupandi eignast verður brúaður með fasteignaláni og 10% eigin fé að lágmarki“, að sögn Stefáns.

Fyrstu kaupendum verður boðið allt að 25% eignarhlutaframlag frá sjóðnum og öðrum kaupendum allt að 20%. Einnig mun kaupandi skuldbinda sig til að greiða leigu fyrir þann hlut sem er ekki í hans eigu, sem ákvarðast út frá stærð og verði eignar eins og gengur og gerist á leigumarkaði.

„Sambærilegt fyrirkomulag hefur lengi verið vinsælt í Noregi og hjálpað fjölda fyrstu kaupenda inn á markaðinn. Að eiga þak yfir höfuðið á ekki að vera lúxus sem aðeins fáir hafa efni á“, segir Stefán.

Heimild: Vb.is