
Þrjátíu til fjörutíu fasteignir sem urðu fyrir altjóni í jarðhræringum og eldgosi við Grindavík síðustu ár verða rifin niður á þessu ári. Þrjú hús verða rifin á næstu vikum. Forseti bæjarstjórnar segir um blendnar tilfinningar að ræða en niðurrifið markar upphaf endurreisnar bæjarins.
Í þessum mánuði mun Grindavíkurbær ráðast í örútboð á niðurrifi 30 til 40 húsa sem hafa orðið fyrir altjóni á síðustu árum í náttúruhamförunum á Reykjanesinu en fyrstu þrjár fasteignirnar sem eru við Mánasund og Mánagötu verða rifnar á næstu vikum.
Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, segir bæði um mikil tímamót að ræða enda marki komandi niðurrif fyrsta skrefið í uppbyggingu og endurreisn bæjarins.
„Þetta er erfitt mál. Það eru miklar tilfinningar sem þarna liggja undir. Þetta eru eignir fólks sem hafa í einhverjum tilfellum byggt þessi hús. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir núna,“ segir Ásrún.

Grindavíkurbær
„Þetta eru bara ótrúlega blendnar tilfinningar og þetta er náttúrulega bara hluti af heildarmynd bæjarins, þessar eignir. Eins og ég sagði þá er auðvitað ánægjulegt að vera komin á þennan stað og við þurfum að halda áfram í þessari vegferð.“
Mikilvægt sé að rífa húsin svo hægt sé að hefja framkvæmdir við að tryggja öryggi á svæðinu og þar með fækka afgirtum svæðum í bænum.
„Þau standa á sprungum og það þarf að fara í ákveðnar sprunguviðgerðir. Það er ákveðin áætlun sem við erum að vinna út frá. Þessi framkvæmdaáætlun tvö. Þetta er bara liður í ákveðinni heildarmynd,“ segir Ásrún.
Flestar eignirnar sem á að rífa eru nú í eigu fasteignafélagsins Þórkötlu en þeir sem hafa ekki selt altjónaðar fasteignir sínar þurfa að semja við Grindavíkurbæ um niðurrif og greiða umsýslukostnað fyrir.
„Síðan þegar það er farið í niðurrif þá getur eitthvað komið í ljós og það er þannig að ef kostnaðurinn er lægri þá endurgreiðum við og þá þurfa aðilar jafnframt að borga meira ef þetta kostar meira en það er ákveðin hagkvæmni sem fylgir því að gera þetta svona.“
Heimild: Visir.is











