Home Fréttir Í fréttum Allt að 170 íbúðir og mat­hús í endur­bættri Spönginni

Allt að 170 íbúðir og mat­hús í endur­bættri Spönginni

33
0
Teikning Arkís arkitekta af mögulegri framtíðarþróun Spangarinnar. Ljósmynd: Aðsend mynd

Reitir áforma að reisa allt að 170 íbúðir við verslunarkjarnann Spöngina sem til stendur að stækka.

Borgarráð samþykkti í síðustu viku uppbyggingarsamkomulag Reykjavíkurborgar við Reiti fasteignafélag um uppbyggingu við verslunarkjarnann Spöngina í Grafarvogi. Samkomulagið felur í sér að heildarstærð svæðisins aukist umtalsvert.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði 140-170 íbúðir í 2-5 hæða blokkum á svæðinu.

Sjálfur verslunarkjarninn stækkar um 1.400 fermetra. Gert er ráð fyrir „mathúsi“ við hægri hönd verslunar Hagkaups ásamt samkomusal á efri hæð sem getur tekið veislur.

Reitir stefna að því að nýtt byggingarmagn verði 17.200 fermetrar, þar af 12.500 fermetrar af íbúðarrými, 3.500 fermetrar af verslun og þjónustu, og 1.100 undir mathús eða veitingastaði. Til samanburðar eru í dag samtals 25.500 fermetrar af atvinnuhúsnæði á svæðinu.

Meðfylgjandi teikning frá Arkís fylgdi uppbyggingarsamkomulagi borgarinnar og Reita á vef Reykjavíkurborgar.

Fyrirliggjandi hugmyndir Reita ganga út á að fá keypta lóð úr borgalandi sem er suðvestan megin á deiliskipulagsreitnum. Reitir samþykktu að greiða 142,5 milljónir króna fyrir stækkun lóðarinnar, eða 57 þúsund krónur fyrir hvern fermetra lóðarstækkunar.

Í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar er samið um að á lóðinni verði 20% íbúða skilgreindar sem leiguíbúðir, að Félagsbústaðir hafi kauprétt á allt að 5% íbúða á fyrirfram umsömdu föstu verði og að lóðarhafi skuldbindi sig til þess að leggja til 7,5 milljónir króna til listsköpunar.

Loftmynd af verslunarkjarnanum. Reitir greiða 142,5 milljónir fyrir stækkun lóðarinnar til ljósrauða svæðisins.

Samþykktu einnig uppbyggingu við Metró og gömlu skrifstofur Icelandair

Auk uppbyggingar við Spöngina samþykkti borgarráð samkomulag við Reiti er varðar Suðurlandsbraut 56 (Metróreit) og Nauthólsveg 50–52 (Loftleiðareit).

Í tillögu um Metróreitinn er gert ráð fyrir um 99 íbúðum í tveimur samtengdum 5–7 hæða byggingum, auk 1.500 fermetra af verslunar- og þjónusturými á jarðhæð.

Á Loftleiðareitnum að Nauthólsvegi 50–52 er gert ráð fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna. Þar er gert ráð fyrir 150–200 íbúðum af fjölbreyttri gerð, einkum fyrir fólk 60 ára og eldra, auk hjúkrunarheimilis og um 3.600 fermetra af atvinnu- og þjónusturými.Jafnframt er áformað að byggja leikskóla fyrir um 150 börn og grunnskóla fyrir um 120 börn.

Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Heimild: Vb.is