Home Fréttir Í fréttum Hlut­deildar­lánaíbúðir megi mest kosta 87 milljónir

Hlut­deildar­lánaíbúðir megi mest kosta 87 milljónir

16
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Ráðuneytið segir að ekki sé verið að auka umfang úrræðisins umfram það sem SÍ taldi ásættanlegt þegar kerfinu var komið á.

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur svarað þeim athugasemdum Seðlabankans um fyrirhugaða útvíkkun á kerfi hlutdeildarlána. Ráðuneytið segir ljóst að ekki sé verið að auka umfang úrræðisins umfram það sem bankinn taldi ásættanlegt þegar kerfinu var komið á.

Seðlabankinn sagði í umsögn um frumvarpið að útvíkkun úrræðisins væri til þess fallin að auka eftirspurn eftir húsnæði og stuðla því að hækkun íbúðaverðs að öðru óbreyttu. Þá muni stór hluti launþega á Íslandi falla innan tekjumarka úrræðisins verði frumvarpið að lögum, sem væri ekki í samræmi við markmið laganna um aðstoð við afmarkaðan hóp.

Í minnisblaði ráðuneytisins til velferðarnefndar er bent á að horft sé til þess að hækka fjárheimildir til veitingar hlutdeildarlána úr 4 í 5,5 milljarða króna. Það fjármagn muni standa undir 280-310 lánum á næsta ári.

„Þegar úrræðinu var komið á laggirnar árið 2020 lá fyrir að ætlunin væri að veita 400-500 hlutdeildarlán árlega. Taldi SÍ að slíkt umfang væri ekki líklegt til að hafa í för með sér efnahagsleg áhrif,“ segir í minnisblaðinu.

Til samanburðar hafi verið veitt 297 lán árið 2021, 152 lán árið 2022, 232 lán árið 2023, 278 lán árið 2024 og 133 lánsumsóknir voru samþykktar á fyrstu tíu mánuðum ársins 2025.

„Það er því ljóst að ekki er verið að auka umfang úrræðisins umfram það sem SÍ taldi ásættanlegt þegar kerfinu var komið á, heldur verið að gera nauðsynlegar breytingar til að það nýtist betur í samræmi við upphafleg markmið úrræðisins til að aðstoða ungt fólk og tekjulægri fyrstu kaupendur og fólk á leigumarkaði inn á húsnæðismarkaðinn, án fjárhagslegs stuðnings aðstandenda.“

Ráðuneytið segir einnig að frumvarpið feli í sér þýðingarmiklar breytingar til að auka framboð á hagkvæmum íbúðum á komandi árum til framtíðar litið „sem er ekki síst mikilvægt nú þegar útlit er fyrir kólnun hagkerfisins og byggingarmarkaðar“.

Hámarkið 87 milljóna króna íbúðir

Seðlabankinn sagði einfalda útreikninga sýna að útvíkkun tekjuviðmiða ásamt hækkun á hlutfalli hlutdeildarlána af kaupverði íbúða úr 20% í 30% feli í sér að einstaklingar geti í kjölfar breytinganna keypt íbúðir fyrir allt að 74 milljónir króna og hjón og sambúðarfólk fyrir allt að 128 milljónir króna.

Ráðuneytið áréttar, líkt og fram komi í frumvarpinu, að ætlunin sé að uppfæra hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða samhliða lagasetningunni með breytingu á reglugerð um hlutdeildarlán, þar sem umrædd hámarksverð eru skilgreind.

Stefnt sé að því að hámarksverð dýrustu mögulegu hlutdeildarlánaíbúðar, með fjórum eða fleiri svefnherbergjum, verði 87 milljónir króna samkvæmt drög að reglugerð sem lá ekki fyrir þegar umsögn Seðlabankans var veitt.

„Hámarksverð íbúða hafa ekki verið uppfærð frá því um mitt ár 2023 og er svo komið að fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu uppfylla gildandi skilyrði.“

Þá sé gert ráð fyrir að verðflokkum verði fjölgað úr þremur flokkum í fjóra í því skyni að taka betur mið af ólíkum markaðsaðstæðum milli sveitarfélaga.

Helst náð til þeirra sem hafa verið að hefja störf eftir tekjulágt tímabil

Hvað hækkun tekjumarka varðar segir ráðuneytið að þau skilyrði sem hefa legið til grundvallar við veitingu lánanna hafi reynst of ströng með tilliti til markmiða úrræðisins.

„Samspil lágra tekjumarka úrræðisins og ríkra krafna um hámark greiðslubyrðarhlutfalls og greiðslumat á sama tíma og vaxtastig er hátt hefur valdið því að umsækjendur hafa helst þurft að vera að hefja vel launuð störf eftir tekjulágt tímabil, svo sem vegna náms eða fæðingarorlofs, þegar umsókn um hlutdeildarlán er lögð fram til að uppfylla samtímis öll skilyrði úrræðisins.“

Í frumvarpinu sé lagt til að almenn tekjumörk verði hækkuð þannig að þau nái til einstaklinga/einstæðra með tekjur í fyrstu sjö og fyrstu fjórum tekjutíundum fyrir hjón og sambúðarfólk „enda ljóst að einstaklingar/einstæðir þurfa aukinn stuðning til að standast kröfur um greiðslubyrðarhlutfall og greiðslumat“.

Heimild: Vb.is