Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt til breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem ætlað er að innleiða reglugerð CRR III í reglugerð ESB.
Breytingartillagan er í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands um að veita fjármálafyrirtækjum tímabundna heimild til að miða við 20% lágmarksframlag eigin fjár lántaka í stað 25% þegar það kemur að framkvæmdarlánum.
Í byrjun mánaðar greindi Seðlabanki Íslands frá því að bankinn hefði ákveðið að taka upp viðmiðunarreglur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) samhliða innleiðingu CRR III hér á landi, þó með fyrrnefndu fráviki út árið 2027.
CRR III-regluverkið mun lækka áhættuvegnar eignir (REA) íslensku bankanna um á annað hundrað milljarða.
Alveg frá því að regluverkið var kynnt var ljóst að það myndi þó hafa neikvæð áhrif á eiginfjárhlutfall framkvæmdalána, sem myndi hafa mest áhrif til hækkunar á áhættuvegum eignum bankanna.
Til einföldunar þá er áhættugrunnur reiknaður eftir áhættuvog (%) sem ræðst m.a. af eiginleikum útláns og lántaka. Því hærri sem áhættuvoginn er því meiri áhætta fylgir láninu sem leiðir til meiri eiginfjárbindingar bankans sem eykur kostnað við lánveitingu.
Áður en Seðlabankinn ákvað að víkja frá kröfum um 25% eiginfjárframlag kom fram í greiningu Landsbankans að samanlögð útlán bankanna til byggingarstarfsemi voru 338 milljarðar í lok ágúst. Innleiðing CRR III mun því auka vaxtakostnað í greininni um 3,5 til 4,5 milljarða.












