Framkvæmdir við byggingu nýrrar Ölfusárbrúar eru á góðu skriði þessa daga og smíði á undirstöðum og landstöplum er langt kominn. Í Efri-Laugardælaeyju er nú unnið við jarðvinnu fyrir undirstöðu turnsins sem þar verður reistur sem mikilvægt burðarvirki brúarinnar.
Vestan við Ölfusá hvar heitir Hellismýri er verið að fergja vegstæði, færa lagnir nærri hringtorginu á Biskupstungnabraut; á þessum stað hefur N1 fengið vilyrði um lóð fyrir söluskála. Austan við Selfoss er svo verið að reisa brú á mislægum gatnamótum á nýjum bút á hringveginum þar.
Úti í Póllandi er hafin framleiðsla á stálvirki brúarinnar sem verður alls 330 metra löng. Í dag eru á verkstað um 40 starfsmenn á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna.
Einnig stálsmiðir frá Póllandi, hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn á vegum Vegagerðarinnar, en þetta er eitt af stærri verkefnum hennar í langan tíma.
Heimild: Mbl.is












