Fasteignasali segir nýja fjármögnunarleið sem felst í því að byggingarfyrirtæki eignist hluta úr íbúð geti hægt á uppbyggingu ef fyrirtækin binda of mikið fé í íbúðunum. Þetta geti þó verið góð lausn fyrir marga kaupendur.
Ný fjármögnunarleið sem byggingarverktakar bjóða fasteignakaupendum gæti hægt á íbúðauppbyggingu að mati fasteignasala, í henni flest að verktakafyrirtækin eignast 20% í fasteign á móti kaupanda sem þá þarf að leggja minna út fyrir henni.
Jason Guðmundsson, fasteignasali hjá Mikluborg, segir þetta geta nýst mörgum til að komast inn á fasteignamarkað eða til að stækka við sig. Aftur á móti þurfi byggingarverktakar mikið fjármagn til að halda sinni starfsemi gangandi. Þeir velti gjarnan fjármagni sem fæst fyrir nýkláruð verkefni yfir í þau næstu.
„Ef að þeir binda 20% af eigin fénu sínu í verkefninu, þá er náttúrlega svolítið erfitt að fara af stað áfram í næstu verkefni sem að getur vissulega hægt á markaðnum,“ segir Jason.
Hann segir stór verktakafyrirtæki ekki vera mörg og að því séu ekki mörg fyrirtæki sem geti lagt af stað í stórar byggingarframkvæmdir.
„Þannig að þetta getur alveg bitið sjálft sig í afturendann en eitthvað verða þeir að gera og einhvern veginn þurfa þeir að koma sér af stað.“
Sitt sýnist hverjum um þessa nýju fjármögnunarleið, líkt og fjallað var um í Þetta helst. Þar sagði Jónas Atli Gunnarsson, sérfræðingur hjá HMS, þessa leið geta reynst vel ef hún nær að glæða líf í húsnæðismarkaðinn. Hann bendir á að eignamyndur sé þó hægari og áhættan fyrir kaupendur meiri.
Ragnari Þór Ingólfssyni, sem er þingmaður Flokks fólksins formaður fjárlaganefndar og sérstaks aðgerðarhóps um fasteignamarkaðinn, líst ekki vel á þetta útspil. Hann hefði heldur viljað sjá verð íbúða lækka.
Heimild: Ruv.is












