Home Fréttir Í fréttum Segir ítölsku lampana vera ódýrasta kostinn

Segir ítölsku lampana vera ódýrasta kostinn

27
0
„Allt bull um að við eigum enga peninga. Þetta er bara ekki rétt og ég vísa þessu bara til föðurhúsanna,“ segir Guðný. Ljósmynd/Reykjanesbær

Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, segir lampa sem settir voru upp í grunnskólum bæjarins hafa verið ódýrasta kostinn miðað við þær kröfur sem gerðar voru til ljósanna. Farið var í verðkönnun til að meta ódýrasta kostinn.

„Heildartalan er há, ég er sammála því, en þetta eru yfir 300 ljós í tvær risastórar stofnanir sem við erum að byggja upp,“ segir Guðný í samtali við mbl.is.

Greint var frá því fyrir helgi að kaup og uppsetning á ítölskum lömpum í skólastofur í tveimur grunnskólum í Reykjanesbæ hafi kostað sveitarfélagið rúmar 48 milljónir króna.

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Reykjanesbæ hafa gagnrýnt kostnaðinn og fjárútlát bæjarins.

Flúorljós hefðu ekki mætt kröfum

Guðný segir að farið hafi verið í verðkönnun á ljóskostum áður en lamparnir voru valdir. Miðað við þær kröfur sem settar voru fram voru lamparnir frá ítalska framleiðandanum Iguzzini ódýrastir. Guðný segir að meðal krafna sem hafi verið gerðar væri að hægt væri að dimma ljósin.

Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu verktakar sem sáu um uppsetningu á lömpunum bent bænum á að hægt væri að koma upp lýsingu í skólastofurnar á hagstæðari hátt með innkaupum á ódýrari lömpum sem höfðu nýst vel í öðrum grunnskólum.

Spurð út í þetta segir Guðný:

„Við hefðum alveg getað keypt flúorljós sem hefðu verið ódýrari en það er ekki það sem við erum að vinna með og setja kröfur um í okkar skólum og okkar byggingum,“ segir Guðný.

156 þúsund krónur stykkið

Að meðtalinni uppsetningu kostuðu ljósin 156 þúsund krónur stykkið og voru í heildina settir upp 308 lampar í 55 skólastofum. 214 lampar voru settir upp í Holtaskóla og 94 lampar í Myllubakkaskóla.

Guðný vísar gagnrýni fulltrúa minnihlutans um að þau hafi ekki fengið upplýsingar um kostnað ljósanna til föðurhúsanna.

„Við erum með eignasvið hjá Reykjanesbæ sem fer í kostnaðargreiningu á öllu sem við erum að gera. Allar þessar upplýsingar liggja fyrir. Bæjarfulltrúar geta kynnt sér og beðið um öll þau gögn sem þeir vilja,“ segir Guðný.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Myllubakkaskóla og Holtaskóla að undanförnu. Bærinn hefur þurft að ráðast í töluverðar lántökur vegna framkvæmdanna en Guðný segir að það hafi legið fyrir í ársreikningi bæjarfélagsins.

„Allt bull um að við eigum enga peninga. Þetta er bara ekki rétt og ég vísa þessu bara til föðurhúsanna,“ segir Guðný.

Heimild: Mbl.is