Home Fréttir Í fréttum Stjórn­enda­skipti hjá verk­fræði­stofunni Vista

Stjórn­enda­skipti hjá verk­fræði­stofunni Vista

35
0
Heiðar Karlsson og Andrés Andrésson. Ljósmynd: Samsett

Andrés Andrésson hefur tekið við af Heiðari Karlssyni sem framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Vista.

Andrés Andrésson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Vista. Heiðar Karlsson, sem hefur gegnt því starfi síðastliðin fimm ár, mun að eigin ósk snúa sér alfarið að sölumálum og samskiptum við viðskiptavini og er nú forstöðumaður viðskiptaþróunar.

Í sumar hóf Andrés aftur störf hjá Vista eftir stutt hlé en hann starfaði hjá Vista í rúman áratug sem sölu- og markaðsstjóri. Í millitíðinni vann Andrés hjá Bentley Systems sem viðskiptaþróunarstjóri, opnaði kaffihús og þjálfaði badminton í Mosfellsbænum.

„Ég er fullur tilhlökkunar til að taka við Vista þar sem ég er alinn upp samhliða Vista og þekki rætur og gildi þess vel. Þetta eru spennandi tímar þar sem fyrirtæki, sveitarfélög og almenningur sér ávinning í rauntímaeftirliti til að auka skilvirkni, tryggja öryggi og miðla upplýsingum,“ segir Andrés.

Að auki stofnaði Andrés, ásamt fleirum, nýsköpunarfyrirtækið Oxstone sem þróar hugbúnað fyrir eftirlit með mælingum á innviða- og umhverfissviði.

Faðir hans, Andrés Þórarinsson, stofnaði fyrirtækið fyrir 41 ári svo það má segja að næsta kynslóð hafi tekið við keflinu í þessu fjölskyldufyrirtæki.

„Það hefur verið mér mikið ánægjuefni að sjá fyrirtækið vaxa á síðustu árum og sjá fjölgun á viðskiptavinum okkar sem vilja vinna með okkur. Þörfin á mælingum og raungögnum er ekki að minnka. Ég er spenntur að halda áfram að vinna að vexti Vista með þeim góða hópi starfsmanna sem við höfum,“ segir Heiðar Karlsson.

Heimild: Vb.is