Innan innviðaráðuneytisins hefur verið skoðuð sú leið að fjármagna nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll að hluta í samvinnu við einkaaðila. Ráðherra segir aðstöðuna ekki boðlega lengur en byggingin verður 80 ára á næsta ári.
Þetta kom fram í svari Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, við fyrirspurn Þórarins Inga Péturssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi á Alþingi nýverið.
Þórarinn benti á að bæði á Akureyri og Egilsstöðum væru öflugar flugstöðvar en aðstaðan í Reykjavík, þar sem um 400.000 farþegar fara um á ári hverju, gæti vart talist boðleg lengur.
Þórarinn spurði ráðherrann út í stöðu endurbóta á flugstöðinni, hvort hægt væri að nýta tekjur af varaflugvallagjaldi í hana og hvort stefnt væri á framkvæmdir á þessu kjörtímabili.
Í svarinu sagðist Eyjólfur taka undir að aðstaðan væri ekki boðleg. Hann sagði verið að skoða möguleika í stöðunni, ef ríkið myndi eitt fjármagna endurbæturnar þá tæki það frá framkvæmdum á öðrum flugvöllum.
Þess vegna sé verið að skoða möguleikana á að einkaaðilar komi að fjármögnuninni. Eyjólfur sagðist hafa átt fund með forsvarsmanni Icelandair en fór ekki nánar út í fundinn. Hann sagði þó að líklegast yrði flugstöðin endurbyggð fyrir ríkisframlag því ólíkt Keflavík sé ekki hægt að hafa út á hana ýmsar sértekjur.
Hann lét þess þó getið að framkvæmd á Reykjavíkurflugvelli gæti verið að finna í samgönguáætlun, sem væntanleg er inn á Alþingi síðar í þessum mánuði. Eyjólfur sagði mikilvægt að styrkja Reykjavíkurflugvöll, taldi hann eiga möguleika með aukinni umferð ferðamanna og bætti við að hann vonaðist til að flugvöllurinn yrði í Vatnsmýri um ókomna framtíð.
Eyjólfur er ekki fyrsti innviðaráðherrann til að reyna að endurbyggja flugstöðina. Árið 2017 sagði Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra, að stefnt væri á framkvæmdir árið eftir. Í drögum að samgönguáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson lagði fram árið 2023 var gert ráð fyrir að byrjað yrði á nýrri flugstöð árið 2024 og hún yrði tilbúin árið 2026.
Heimild: Austurfrett.is












