Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Góður gangur í framkvæmdum við Grensás

Góður gangur í framkvæmdum við Grensás

29
0

Framkvæmdir við nýbyggingu fyrir endurhæfingarstarfsemina við Grensás ganga mjög vel og eru jafnvel á undan áætlun. Gert er ráð fyrir verklokum í lok árs 2026 og flutningum í húsið á fyrri hluta ársins 2027.

Í byggingunni verður ný sjúkradeild með 19 einbýlum með salernum þar sem nútímakröfur eru allar uppfylltar. Á neðri hæðinni verður glæsileg og rúmgóð aðstaða fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun og þar verður nýr tækjabúnaður. Húsnæðið er hannað með hliðsjón af þörfum þjálfunar við endurhæfingu.

Veglegur matsalur verður fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk auk kaffihúss. Fallegur þjálfunargarður með gróðurhúsi verður í suðurátt þar sem hægt verður að njóta útiveru og þjálfunar samtímis.

Mikil tilhlökkun hjá starfsfólki og sjúklingum
Húsið verður frábær viðbót við aðstöðu til þjálfunar. Sundlaugin hefur nú þegar verið gerð upp og er allt þar eins og best verður á kosið.

Mikil tilhlökkun ríkir hjá starfsfólki og sjúklingum eftir nýja húsnæðinu sem mun koma til viðbótar við rúmlega 50 ára gamalt húsnæði sem ekki var sérstaklega hannað með endurhæfingu í huga. Þar mun skapast aukið rými fyrir hluta starfseminnar, s.s. dag- og göngudeild, talþjálfun, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf og fleira.

Hollvinir Grensáss hafa verið dyggir stuðningsaðilar við kaup á nýjum tækjabúnaði og fleiru fyrir Grensás. Einnig hafa hinir ýmsu einstaklingar og félagasamtök stutt myndarlega við bakið á starfseminni sem er ómetanlegt.

Heimild: Island.is