Framkvæmdir á húsnæði leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg dragast enn og hefur opnun hans nú verið seinkað um fimm mánuði.
Endurbætur á húsnæðinu, sem upphaflega var opnað árið 2022, hófust síðsumars 2024 og var leikskólanum þá lokað og starfsemin til bráðabirgða flutt í Ármúla.
Vonir höfðu staðið til að leikskólinn myndi opna aftur að loknu sumarleyfi í ár en í ágúst var foreldrum tilkynnt að svo yrði ekki og að til stæði að ljúka framkvæmdum í seinni hluta október.
Í upphafi síðustu viku fengu foreldrar barna á leikskólanum hins vegar póst þar sem þeim var tilkynnt að framkvæmdirnar myndu enn dragast á langinn og er nú ekki stefnt á opnun fyrr en í mars 2026.
Ýmsir erfiðleikar
„Við viljum upplýsa ykkur um að samkvæmt nýjustu fregnum frá verkstað og umhverfis- og skipulagssviði mun því miður enn seinka því að við komumst aftur til baka í húsnæðið okkar við Kleppsveg,“ segir í póstinum sem mbl.is hefur undir höndum.
„Eins og áður hefur komið fram fylgir verki sem þessu oft mikil óvissa og í þessu tilviki hefur sú óvissa leitt til frekari tafa. Nokkrir stórir þættir hafa leitt til frekari seinkunar en orðin var.
Erfiðlega gekk að ná ásteypulagi af þaki, auk þess sem þurrkunartími nýrrar steypu var mun lengri en gert var ráð fyrir. Til viðbótar þarf að vinna frekar að styrkingu á plötu yfir kjallara. Sitt hvað annað hefur komið upp og haft áhrif á framvindu verksins, fjölmörg aukaverk og viðbætur sem ekki voru fyrirséðar í upphafi og hafa komið fram á verktíma.“
Þá er tekið fram að frekari tafir kunni að koma upp en að engar upplýsingar liggi fyrir um það að svo stöddu.
Heimild: Mbl.is
 
		 
	





