Home Fréttir Í fréttum Breytingar á lánakjörum gætu leitt til kólnunar á fasteignamarkaði

Breytingar á lánakjörum gætu leitt til kólnunar á fasteignamarkaði

34
0
Kári S. Friðriksson er hagfræðingur hjá Arion banka. RÚV – Kristinn Gauti Gunnarsson

Breytingar á lánakjörum bankanna gætu leitt til kólnunar á fasteignamarkaði að mati hagfræðings sem telur ólíklegt að Seðlabankinn lækki stýrivexti á næstu mánuðum.

Hagfræðingur hjá Arion banka telur að kólnun verði á fasteignamarkaði nú þegar aðgengi að húsnæðislánum hefur verið takmarkað. Hann býst ekki við að Seðlabankinn lækki stýrivexti fyrr en á næsta ári.

Óvissa hefur ríkt á íbúðalánamarkaði eftir niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðu vaxtamáli. Landsbankinn brást við í gær með því loka fyrir verðtryggð íbúðalán, nema fyrir fyrstu kaupendur. Þessi breyting getur haft töluverð áhrif á heimilisbókhaldið því talsverður munur er á afborgunum af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum.

Þannig væru mánaðarlegar afborganir af nýju fimmtíu milljón króna verðtryggðu húsnæðisláni hjá Íslandsbanka um 294 þúsund krónur. Afborganir af óverðtryggðu væru tæplega 362 þúsund. Þetta er tæplega sjötíu þúsund króna munur.

Tæplega 70 þúsund króna munur er á verðtryggðu og óverðtryggðu láni hjá Íslandsbanka.
RÚV / Fréttagrafík

„Það er bara dálítil óvissa í kringum þetta. Og hver áhrifin geta orðið. En það er klárlega verið að takmarka aðgengi að verðtryggðum lánum og það þýðir að fólk mun ekki geta tekið jafn há lán eins og áður og það mun væntanlega leiða til þess að það verði kólnun á fasteignamarkaði,“ segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka.

Það sé hins vegar ekki hans að svara til um hvort Arion banki bregðist við með sama hætti og Landsbankinn. Fleira spilar inn í óvissuna í efnahagsmálum; gjaldþrot Play og bilun í rafbúnaði Norðuráls á Grundartanga.

Kári telur ólíklegt að Seðlabankinn bregðist við með lækkun stýrivaxta á þessu ári.

„Hingað til hefur Seðlabankinn ekki óttast það að vera með vexti of háa. Frekar að bregðast við með því að lækka vexti hraðar ef aðstæður breytast þannig. Þetta mun væntanlega spilast út á næstu mánuðum. En mögulega förum við í þær aðstæður að það verði hérna bæði verðbólga og dálítið kólnandi markaður.“

Heimild: Ruv.is