Verulegri fjölgun íbúa er spáð í Akraneskaupstað með tilkomu Sundabrautar og er gert ráð fyrir að aðfluttum umfram brottflutta fjölgi um 93 á ári frá því sem var á tímabilinu 2019-2022, en á þeim árum nam íbúafjölgun 104 árlega að jafnaði.
Gangi spáin eftir mun því íbúum fjölga um 197 að meðaltali á ári, eftir að Sundabraut verður komin í gagnið.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem er viðauki við umhverfismatsskýrslu Sundabrautar sem nú er í kynningu, en höfundur þess er Vífill Karlsson prófessor.
Í skýrslunni segir að ferðatími á milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins muni styttast um fjórðung með tilkomu Sundabrautar, en vegstyttingin nemur 9 kílómetrum.
Atvinnusókn Skagamanna til Reykjavíkur er um 14% samkvæmt rannsókn Byggðastofnunar en um 86% á heimasvæði – Akranesi og Grundartanga. En bæði á Grundartanga og Akranesi eru áform um mikla atvinnuuppbyggingu, bæði í fiskeldi og magnesíumframleiðslu.
Heimild: Mbl.is