Lagning Sundabrautar er talin hafa talsverð neikvæð áhrif á loftgæði, landslag og ásýnd, setflutninga, hafstrauma, öldufar og náttúruminjar og verndarsvæði á rekstrartíma.
Hins vegar er Sundabraut talin muna hafa talsverð eða veruleg jákvæð áhrif á umferðaröryggi, vegna styttingar á ferðatíma og minna álags á aðra samgönguinnviði.
Áhrifin eru talin talsverð í tilfelli ganga undir Kleppsvík en verulega jákvæð í tilfelli brúar.
Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu Skipulagsstofnunar sem birt var í samráðsgátt í gær.
Þar segir að með brú sé mögulegt að hafa stíga samhliða akbrautum auk þess sem brú bjóði upp á frekari tækifæri fyrir þjónustu almenningssamgangna samanborið við göng.
Áhrif á loftslag neikvæð við framkvæmdir
Í skýrslunni kemur fram að áhrif Sundabrautar er talin vera jákvæð á loftslag, loftgæði, útivist og byggða- og íbúaþróun á rekstrartíma.
Áhrif á loftslag eru til langs tíma metin óveruleg jákvæð fyrir Sundagöng en talsverð jákvæð fyrir Sundabrú vegna fækkunar á eknum kílómetrum.
Á framkvæmdatíma eru áhrif á loftslag við lagningu Sundabrautar hins vegar metin talsvert neikvæð og vegur framleiðsla og öflun hráefna þar þyngst auk þess sem útblástur vinnuvéla við framkvæmdir eykur kolefnisspor, sér í lagi fyrir Sundagöng.
Þá eru áhrifin á umferð og umferðaröryggi, loftslag, hljóðvist og fuglalíf metin neikvæð á framkvæmdatíma. Áhrif á hljóðvist á rekstrartíma Sundabrautar eru talin óveruleg jákvæð fyrir íbúa í Laugardal og óveruleg neikvæð fyrir íbúa í Grafarvogi, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða.

Áhrifin á sjávardýr óljós
Óvíst er hvaða áhrif Sundabraut hefur fyrir öryggi Gufuneshauga, hafstrauma, öldufar, setflutninga, fiska og önnur sjávardýr, vatnshlot og fuglalíf.
„Líkleg áhrif eru þó talin óveruleg til nokkuð neikvæð og kunna að verða talsverð neikvæð á hafstrauma, öldufar og setflutninga í Leiruvogi og talsverð neikvæð á fuglalíf á Geldinganesi og í Leiruvoginum,“ segir í skýrslunni.
Sundabraut kemur til með að þvera Kleppsvík, Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð. Ekki hefur verið ákveðið hvort Kleppsvík verði þveruð með göngum eða brú.
Heimild: Mbl.is