Home Fréttir Í fréttum Sýna umfang og skipulag nýs borgarhluta

Sýna umfang og skipulag nýs borgarhluta

33
0
Klasi hóf kaup á fasteignum á Ártúnshöfða fyrir rúmlega 20 árum. Ljósmynd: Aðsend mynd

Klasi hefur sett í loftið vefsíðu sem sýnir umfang uppbyggingar átta þúsund íbúða svæðis á Ártúnshöfða og í Elliðaárvogi.

Fasteignaþróunarfélagið Klasi hefur birt myndir sem sýna umfang uppbyggingar á Ártúnshöfða og í Elliðaárvogi en um er að ræða átta þúsund íbúða svæði sem áður hýsti iðnaðarhverfi.

Borgarhlutinn afmarkast af Vesturlandsvegi, Höfðabakka og strandlínunni við Grafarvog og Elliðaárvog og er áætlað að hverfið geti rúmað 20 þúsund íbúa þegar það verður fullbyggt.

Krossamýrartorg verður kjarni þessa nýja borgarhluta með menningar- og samfélagshúsi, fjölbreyttri verslun, veitingum, líkamsrækt, afþreyingu og þjónustu auk skrifstofuhúsnæðis en markmiðið er að gera torgið að nýjum miðpunkti austurborgarinnar.

„Þar sem áður var iðnaður verður á næstu árum til líflegt borgarumhverfi með fjölbreyttum íbúðum, þjónustu og grænum svæðum. Elliðaárvogur er fallegt útivistarsvæði, með miklu útsýni og nálægð við sjóinn og af Höfðanum er mikið útsýni,“ segir í tilkynningu.

Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á svæðinu rísi minnst tveir samþættir leik- og grunnskólar ásamt safnskóla fyrir eldri grunnskólanema. Skólarnir eru skipulagðir við grænan gönguás sem liðast í gegnum hverfið með áningarstöðum og leiksvæðum.

Borgarhlutinn afmarkast af Vesturlandsvegi, Höfðabakka og strandlínunni við Grafarvog og Elliðaárvog.
Aðsend mynd

Fyrsta lota Borgarlínu mun jafnframt þvera hverfið frá árinu 2031 og verður Krossamýrartorg skiptistöð fyrir þrjár Borgarlínuleiðir sem tengja munu hverfið við aðra borgarhluta.

Klasi hóf kaup á fasteignum á Ártúnshöfða fyrir rúmlega 20 árum en árið 2017 gaf Reykjavíkurborg út rammaskipulag fyrir svæðið sem lagði grunn að breyttu byggðamynstri og nýrri landnotkun.

Eftir það hófu Klasi, ASK arkitektar og fleiri að vinna með Reykjavíkurborg að deiliskipulagi fyrir fyrsta uppbyggingarsvæðið en það tók gildi árið 2022. Klasi vinnur nú að uppbyggingu á svæðinu ásamt öðrum þróunaraðilum sem margir hafa keypt lóðir af Klasa.

Félagið tekur fram að myndirnar sýni einungis skipulag borgarhlutans en ekki hönnun einstakra bygginga. Vefsíða hefur þó farið í loftið þar sem hægt verður að fylgjast með því hvernig Elliðaárvogur og Ártúnshöfði taka á sig mynd á næstu árum.

heimild: Vb.is