
Illa gengur að selja fullbúnar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en Páll Pálsson fasteignasali segir nokkrar ástæður liggja þar að baki.
Samkvæmt nýrri skýrslu frá HMS voru fullbúnar nýbyggðar íbúðir 1.002 talsins í septembermánuði og hefur hlutfall þeirra aldrei verið hærra. Til samanburðar voru fullbúnar íbúðir 606 á sama tíma í fyrra og nemur því hækkunin um 42%.
Í septembermánuði voru alls 7.566 íbúðir í byggingu og bendir margt til að uppsöfnun fullbúinna íbúða sem ekki eru teknar í notkun muni halda áfram að vaxa á næstunni.
Páll Pálsson fasteignasali segir í samtali við Viðskiptablaðið að þessi þróun komi ekki á óvart miðað við núverandi stefnu sveitarfélaga og markaðsaðstæður og nefnir nokkrar meginástæður sem hann telur að liggi á bak við núverandi ástand.
Hann segir of hátt verðlag vera eina af meginástæðunum en meðalásett auglýst fermetraverð á nýbyggðri íbúð er um 1.088.000 krónur á meðan meðalfermetraverð á eldri íbúðum er í kringum 800 þúsund krónur.
Þar að auki þurfa byggingarverktakar nú að keppa við atvinnufjárfesta sem hafa bæst við sem enn einn milliliðurinn innan geirans og hafa einungis áhuga á því að selja lóðirnar, sem margir kaupendur bíða árum saman eftir, til hæstbjóðenda.
„Það eru mörg dæmi þar sem fjárfestar hafa verið að kaupa lóðir eingöngu í þeim tilgangi að áframselja þær til byggingarverktaka fyrir hagnað án þess að gera neitt við lóðina sjálfir.“
Heimild: Vb.is