Home Fréttir Í fréttum Þrír látnir eftir að skólabygging hrundi

Þrír látnir eftir að skólabygging hrundi

18
0
Björgunarfólk á vettvangi. AFP/Juni Kriswanto

Að minnsta kosti þrír eru látnir og tugir eru slasaðir eftir að íslömsk skólabygging hrundi á stærstu eyju Indónesíu, Java, að sögn lögreglunnar í landinu.

Meira en 100 nemendur höfðu safnast saman til að biðja bænirnar þegar byggingin, sem er á mörgum hæðum, hrundi skyndilega, að því er fréttastofan Antara, greindi frá.

Talsmaður lögreglunnar, Jules Abraham Abast, sagði blaðamönnum að björgunarfólk hefði náð að koma að minnsta kosti 79 manns út úr byggingunni. Enn er fólk inni í byggingunni en ekki er vitað hversu margir.

Nemendur fylgjast með björgunarfólki að störfum. AFP/Juni Kriswanto

Heyrði „grátur og öskur“

Nanang Sigit, yfirmaður björgunarsveitar Surabaya, heldur að fólk sé enn á lífi í byggingunni vegna þess að hann heyrði „grátur og öskur”.

„En við þurfum að vera vakandi og ganga varlega um svæðið vegna þess að ástand byggingarinnar sem hrundi er óstöðugt,” sagði hann.

38 manns eru fastir undir rústunum, að því er BBC greindi frá.

AFP/Juni Kriswanto

Framkvæmdir stóðu yfir

Einn af stjórnendum skólans sagði að byggingin hefði hrunið eftir að verkamenn helltu steypu vegna framkvæmda á þriðju hæð hennar.

„Byggingin var aðeins þriggja hæða. Planið var að hafa fjórar hæðir með flötu þaki,” sagði stjórnandinn, Abdus Salam Mujib.

Áhyggjur hafa verið uppi um lélegt regluverk í tengslum við byggingaframkvæmdir í Indónesíu.

Fjöldi fólks hefur látist eftir að byggingar í landinu hafa hrunið til grunna á undanförnum árum.

Heimild: Mbl.is