
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir að framkvæmdir við Borgarlínu séu í góðum farvegi og að tafir á útboði hafi engin áhrif á heildartímalínu verkefnisins.
„Útboðinu var frestað um tvær vikur. Tilboðin verða því opnuð 30. september. Það hefur þó engin áhrif á framvindu eða heildartímalínu verkefnisins,“ segir Davíð í samtali við mbl.is og tekur fram að framkvæmdirnar fari vel af stað.
„Framkvæmdirnar skiptast í tvo hluta. Fyrri hlutinn er landfyllingarnar og þær ganga mjög vel. Þeim er lokið Kópavogsmegin og vinna stendur nú yfir Reykjavíkurmegin samkvæmt áætlun. Seinni hlutinn er sjálf brúarsmíðin og þótt við höfum veitt bjóðendum tveggja vikna frest hefur það ekki áhrif á heildartímalínuna. Verkefnið er í mjög góðum farvegi.“
Hvað með leiðina sjálfa. Er mynd komin á þá vegaframkvæmd?
„Já, legan liggur í grófum dráttum fyrir í frumdrögum Borgarlínunnar sem voru kynnt 2021. Skipulagsferlið fór svo í gang í fyrra og bæði Reykjavík og Kópavogur hafa lokið breytingum á skipulagi vegna legunnar. Þannig að línan liggur í raun nokkurn veginn fyrir og hana má jafnframt sjá á vefnum okkar,“ bendir hann á.
Framkvæmdir í mörgum köflum
Davíð tekur fram að sú framkvæmd sé væntanleg í útboð. „Leiðin verður brotin niður í marga kafla því hún er löng. Hún liggur frá Hamraborg um Kársnes, yfir Fossvogsbrúna, hjá HR, Landspítalanum og HÍ, niður í miðbæ, eftir Hverfisgötu, Suðurlandsbraut og upp á Höfða. Þetta verður ekki unnið í einu lagi heldur í áföngum,” segir hann jafnframt.
„Næst í röðinni eru framkvæmdir Reykjavíkurmegin, frá Nauthólsvegi að Fossvogi og áfram að Valshlíð. Þar eru einnig talsverðar umferðartafir. Hver hluti verður nýttur um leið og hann er tilbúinn – Strætó fær þá strax aðgang að Borgarlínuaðstöðu á viðkomandi kafla. Meðfram fylgja yfirleitt göngu- og hjólastígaframkvæmdir sem nýtast strax almenningi,” segir framkvæmdastjórinn og heldur áfram:
„Á Nauthólsveginum mun það skipta sköpum að Strætó geti nýtt sér sérstaka Borgarlínuakrein. Þar myndast oft miklar tafir á háannatíma, sérstaklega þegar fólk er að fara í HR, þar sem aðeins er ein leið inn og út af svæðinu. Þessar breytingar munu létta á því álagi.“
Hvenær má búast við að fyrsti áfangi Borgarlínu verði tilbúinn í heild sinni?
„Fyrsta lotan verður ekki fullkláruð fyrr en árið 2031. Hins vegar mun hver einasti bútur nýtast um leið og hann verður tilbúinn, bæði fyrir Strætó, gangandi og hjólandi vegfarendur,“ segir Davíð að lokum.
Heimild: Mbl.is